Ný staða í ESB-málinu með „aðlögun“ í stað umsóknar

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

„Nú er að fara á fulla ferð aðlögunarferli að Evrópusambandinu og ýmis aðlögunarverkefni sem einstök ráðuneyti þurfa að taka þátt í,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna.

Á þingflokksfundi hjá VG í fyrradag var dreift yfirliti yfir helstu verkefni sem þarf að taka þátt í á vegum ESB, vegna þessarar aðlögunar. Þar er stjórnvöldum uppálagt, að sögn Ásmundar, að taka þátt í kynningaráætlun og kynnisferðum til Brussel og tryggja upplýsta umræðu um ESB. Í yfirlitinu er því einnig lýst að innleiða þurfi ný lög og reglugerðir, breyta stofnanaverkinu og undirbúa landbúnaðinn fyrir breytt kerfi. Byrja þurfi að setja upp nýja stofnun, greiðslustofnun, í þeim tilgangi.

Þetta segir Ásmundur Einar óræka sönnun þess að aðildarviðræðurnar svokölluðu séu í raun aðlögunarferli. „Ég held að þetta hljóti að kalla á að málið verði tekið til grundvallarendurskoðunar á vettvangi, ekki bara allra þingnefnda heldur Alþingis í heild. Því það sem kynnt var sem aðildarviðræður er það ekki lengur.“

Hann spyr sig hvar lýðræðið sé fólgið í því að taka upp nýjar stofnanir og breyta stjórnsýslunni áður en þjóðin hefur sagt sinn hug. „Þegar við erum að tala um að setja í þetta ferli hátt í milljarð á næsta ári hljótum við að spyrja hvort þeim fjármunum sé ekki betur varið til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.

Og Ásmundur Einar kveðst aðspurður ekki geta stutt fjárlagafrumvarp sem geri ráð fyrir kostnaði í aðlögunarferlið að ESB, á sama tíma og skorið sé niður til velferðarmála. „Ég mun ekki fella mig við að við séum í þessu aðlögunarferli við Evrópusambandið og séum að eyða í það hundruðum milljóna og milljörðum á sama tíma og skorið er niður í velferðarkerfinu. Ég mun ekki styðja slíkt. Við þau orð stend ég,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »