28,5% hækkun á gjaldskrá

Stjórn Orkuveitunnar hefur samþykkt að hækka gjaldskrá.
Stjórn Orkuveitunnar hefur samþykkt að hækka gjaldskrá.

Gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur hækkar um 28,5% 1. október næstkomandi. Tillaga þessa efnis var samþykkt á stjórnarfundi félagsins. Jafnframt var ákveðið að fela forstjóra að skera niður rekstrarkostnað um 25%. Þá ætlar félagið að selja  eignir sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að þessar ákvarðanir séu erfiðar en nauðsynlegar. Fyrirtækið geti að óbreyttu ekki staðið undir endurgreiðslu lána.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að algengur orkureikningur heimila hækki um 2.750 krónur á mánuði eða 28,5%. Þá er reiknað með 130 fermetra íbúð með nokkra í heimili. Við hækkunina aukist heimilisútgjöld viðskiptavina OR að jafnaði um 0,7%. Áhrifin á neysluverðsvísitöluna er 0,39%.

Nú  kostar rafmagn og hiti í 130 fermetra íbúð  um 117 þúsund á ári  en eftir hækkun verður þessi kostnaður um 150 þúsund.

Einstakir liðir í gjaldskránni hækka mismunandi mikið. Þannig hækkar gjald fyrir dreifingu á rafmagni um 40%, rafmagnsverð um 11% og verð á heitu vatni um 35%. Orkuveitan bendir á að verð á heitu vatni hafi lækkað að raunvirði um 30% frá ársbyrjun 2005. Hún bendir einnig á að frá ársbyrjun 2004 hafi verð á rafmagni til heimila hækkað um 23% á meðan neysluverðsvísitala hafi hækkað um 57%. Verð á raforku til stóriðju hafi hins vegar hækkað á þessu tímabili um 116% í íslenskum krónum.

Gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur skal hér eftir halda raungildi sínu og taka mið af almennu verðlagi í landinu. Forstjóri fyrirtækisins mun endurskoða gjaldskrána á hálfs árs fresti og leggja mögulegar breytingar fyrir stjórn til kynningar.

Orkuveitan stefnir að því að selja eignir sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Meðal þess sem er til sölu er eignarhlutur OR í HS-Veitum og Landsneti, landareignir og lóðir í Hvammsvík í Kjós og Berserkjaeyri á Snæfellsnesi. Ennfremur er Hótel Hengill á Nesjavöllum og veitingastaðurinn Perlan til sölu.

Gert er ráð fyrir að draga saman rekstur OR um liðlega tvo milljarða króna á ári með hagræðingu í áföngum til ársins 2012. Þar af munu aðgerðir áranna 2009 og 2010 skila 900 milljóna króna sparnaði. Orkuveitan segir að tónninn hafi þegar verið gefinn af hálfu stjórnar með því að lækka laun forstjóra um hundruð þúsunda króna á mánuði. Hann hefur síðan staðið fyrir því að rýma efstu hæð Orkuveituhússins í því skyni að leigja hana út og afla þannig tekna.

„Þær aðgerðir sem við erum að ráðast í og áætlanir sem þeim fylgja miða að því að tryggja skammtímagreiðsluhæfi félagsins. Félagið var fjármagnað til áramóta og það er óviðunandi staða að sjóðstaðan sé ekki betri en það. Aðgerðirnar eru hugsaðar til að styrkja getu félagsins til að afla frekari lánsfjár,“ sagði Haraldur Flosi.

„Þó að við stöndum nú í erfiðum ákvörðunum þá hefur þetta félag allar forsendur til að ná fyrri reisn. Það nokkrir samverkandi þættir sem valda því að fyrirtækið gengur núna í gegnum erfitt tímabil. Ég tel að á tiltölulega fáum árum geti þetta félag farið að skila miklum arði.“

Haraldur Flosi Tryggvason.
Haraldur Flosi Tryggvason. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert