Aukaefni í bensíni olli gangtruflunum í bílum

Mynd/Brimborg

Á vordögum var fluttur inn skipsfarmur af bensíni af öllum olíufélögunum sem innihélt efni sem skaðað hefur gang véla margra bíla hérlendis. Segja má að bylgja hafi gengið yfir snemmsumars hjá mörgum af stærri bifreiðaverkstæðum landsins þegar grunlausir ökumenn komu með bíla sína vegna þessara bilana.

Orsaka bilananna er að leita í kertum í vélum bílanna en á kertin sest þetta aukaefni og húðar þau að utan. Verða þau rauðleit fyrir vikið og missa virkni, sem síðan orsakar gangtruflanir.

Þetta aukaefni er kallað „octain booster“ og er sett í bensín til að stilla af oktantölu þess. Aldrei hefur áður komið bensínfarmur til landsins með þessu efni og olíufélögin vissu ekki af efninu í farminum er hann kom til landsins. Seljandinn tilkynnti það ekki heldur. Að sögn talsmanna olíufélaganna er þetta efni víða bannað, svo sem í ákveðnum ríkjum Bandaríkjanna og Kanada og er almennt ekki notað í Evrópu eða Asíu þótt það sé ekki bannað þar. Ekki stendur til að fleiri farmar komi til landsins með þessu innihaldi.

Bensínfarmurinn er nú uppurinn á bensínstöðvum landsins og hefur hann líklega verið á markaði í um fjórar vikur. Því er líklegt að margir bíleigendur hafi fyllt bíla sína tvisvar sinnum með því, en þeir sem keyra mikið líklega oftar. Ekki síst þeir sem voru á ferðalagi á þessum tíma.

Svo virðist sem bílar séu misviðkvæmir fyrir þessu íbætta bensíni og bílar framleiddir í Bandaríkjunum viðkvæmastir fyrir biluninni þar sem kerti þeirra séu af viðkvæmari gerð. Það skýrir ef til vill af hverju svo margir eigendur Ford-bíla hafa leitað til verkstæðis Brimborgar í vandræðum sínum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert