Fréttaskýring: Miðborg fyrir ofbeldismenn – og alla hina

Lögreglumenn við eftirlit í miðbænum.
Lögreglumenn við eftirlit í miðbænum. mbl.is/Júlíus

Síðustu árin fyrir hrun var Reykjavík óspart hampað í erlendum fjölmiðlum og sagt að borgin væri með afbrigðum hipp og kúl, hvergi í heiminum væri samankominn jafn mikill fjöldi vínveitingastaða á jafn litlu svæði og í miðborginni. Þarna væri mikið fjör og frelsi. En minni áhugi var á því að kynna sér neikvæðu hliðarnar.

Miðborgin breytist reglulega í þann stað á landinu þar sem mest er um líkamlegt ofbeldi, oft tilefnislausar árásir og sumar alvarlegar. En aðeins að kvöld- og næturlagi um helgar. Að öllu jöfnu er ofbeldi ekki algengara þar en annars staðar.

Oft hafa íbúar kvartað í fjölmiðlum undan öskrum, dúndrandi tónlistarhávaða og glerbrotum í grennd við suma skemmtistaðina.

„Við verðum vör við að fólk er að bera út áfengi af stöðunum, sem er óheimilt, oftar en ekki eru ílátin glös eða flöskur,“ segir Ómar Smári Ármannsson yfirlögregluþjónn. „Þegar drukkið fólk klárar grýtir það þessu oft frá sér. Þá er það undir hælinn lagt hvort það lendir í húsvegg eða öðru fólki. Þetta hefur stundum lent í andlitinu á fólki og valdið verulegum skaða.“ Reynt hafi verið að fá veitingamenn til að sameinast um að reyna að draga úr hættunni með því að selja eingöngu bjór í plastglösum eftir miðnætti um helgar, eins og algengast sé í Bandaríkjunum. Sumir fari að þessum tilmælum en ekki allir.

Leyfishafi og rekstraraðili er ekki alltaf einn og sami maðurinn. En þótt stað sé lokað vegna brota á reglum er einfalt að skipta um kennitölu á rekstrarfélaginu. Þá er byrjað aftur með hreint borð, séð með augum yfirvalda. Að vísu getur sami maður ekki verið leyfishafi í fimm ár hafi hann verið alveg sviptur rekstrarleyfi. En leppun er háþróuð íþrótt í viðskiptalífinu. Einn heimildarmaður fullyrti að finna mætti dæmi um huldumenn að störfum þótt andlitið út á við væri nýtt.

Hvaða hlutverk?

Hvaða hlutverki á miðborgin að gegna? Á hún að vera aðallega verslunarhverfi eða skemmtanahverfi, jafnvel rauðuljósahverfi með vændishúsum? Eða blanda af öllu? Víða er mikil íbúðarbyggð í næsta nágrenni við vinsælustu krárnar en það kallar vissulega á vandamál að blanda hlutunum saman á þennan hátt. Ef til vill skiptir mestu að skipulagsstefna sé í fastari skorðum, reglur skýrar þannig að aðilar sem úrskurða í deilum milli veitingahúsaeigenda og almennra íbúa hafi traust viðmið. Geðþóttinn sé ekki við stýrið.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að vandinn vegna ofbeldis í tengslum við skemmtanalíf í miðborg sé ekki séríslenskt fyrirbæri.

„Ég held að við séum með allt of mikið frelsi á þessu sviði, t.d. hvað varðar afgreiðslutíma og fjölda veitingastaða í miðborginni,“ segir Stefán. „Þessu fylgja mörg vandamál, mikið ofbeldi eins og tölur okkar hafa sýnt. Við höfum hvatt borgaryfirvöld til að móta sér skýra stefnu um þessi mál.

Ég er að ræða þetta við kollega mína í höfuðborgum hinna landanna á Norðurlöndunum þessa dagana. Þar eru menn að leggja til enn frekari takmarkanir á afgreiðslutíma; ég held að hvergi sé jafn frjálslynd stefna varðandi afgreiðslutíma og hjá okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert