Gegn vilja Guðs

Jenis av Rana.
Jenis av Rana.

Hjónabönd samkynhneigðra brjóta í bága við vilja Guðs eins og hann kemur fram í biblíunni, að mati Jenis av Rana, leiðtoga kristilega Miðflokksins í Færeyjum. Jenis fullyrðir jafnframt í samtali við Morgunblaðið að enginn þingmaður á færeyska þinginu myndi þora að leggja til slík hjónabönd.

Jenis hefur sem kunnugt er ákveðið að afþakka boð í kvöldverðarveislu til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna opinberrar heimsóknar hennar til Færeyja í kvöld, af þeirri ástæðu að hún sitji boðið með eiginkonu sinni.

„Minn flokkur leggst alfarið gegn samkynhneigð sem lífsstíl. Við erum andvíg hjónaböndum samkynhneigðra. Margir þingmenn á færeyska þinginu deila skoðunum mínum í þessum efnum. Það myndi ekki þora að leggja fram frumvarp um hjónabönd samkynhneigðra. Það er slíkur meirihluti gegn slíkum hugmyndum að enginn þingmaður hefði hugrekki til þess.“

Má í þessu samhengi benda á að haft er eftir Gerhard Lognberg, þingmanni Javnaðarflokkurin, systurflokks Samfylkingarinnar, á vef Nordlysid að hann líti á heimsókn Jóhönnu með maka sínum sem ögrun. Þá segir Alfred Olsen, þingflokksformaður Sambandsflokksins, í samtali við sama vef að ekki þurfi að koma á óvart að heimsókn Jóhönnu með maka sínum Jónínu Leósdóttur sé ögrun í huga margra Færeyinga.

Blöðin myndu spyrja spurninga

Jenis víkur að boðinu fræga í kvöld.

„Ef ég léti sjá mig þar í kvöld færi ég gegn stefnu flokks míns. Öll færeysku blöðin, útvarpið og sjónvarpið myndi spyrja: „Hvers vegna hefurðu skipt um skoðun?“ Málið snýst ekki um óvild gagnvart Jóhönnu og konu hennar.

Málið er þvert á móti innanlandsmál í Færeyjum. Forsætisráðherrann er að reyna að þvinga mig til að gera hluti sem hann veit að ég myndi aldrei fallast á,“ segir Jenis sem bætir því við að hann sé þeirrar skoðunar að óviðeigandi sé að hann sæki boð og önnur teiti án eiginkonu sinnar.

Þetta sé grundvallarafstaða sem byggi á kristnum gildum, afstaða sem sé óháð kynferði Jóhönnu eða hjúskaparstöðu hennar.

Hann hafi, svo dæmi sé tekið, afþakkað að mæta í boð til heiðurs danska forsætisráðherranum fyrir um mánuði af sömu ástæðu.

Högni á villigötum

Högni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum, hefur gagnrýnt Jenis harðlega og sagt afstöðu hans Færeyingum til skammar. 

„Ég er sannfærður um að Högni hafi rangt fyrir sér. Færeyska þjóðin er mjög kristin og kirkjurækin. Ég er viss um að ef þjóðin yrði spurð að þá kæmi í ljós að hún er ekki sömu skoðunar og hann. Slík könnun myndi leiða í ljós að meirihluti Færeyinga er sömu skoðunar og meirihluti þingmanna.

Ástæðan fyrir því að ég hyggst ekki mæta í kvöldverðarboðið í kvöld er skýr: Það bryti í bága við stefnu okkar [í Miðflokknum]. Þetta snýst ekki um persónulega óvild gagnvart Jóhönnu eða Jónínu [eiginkonu hennar]. Þær eru alltaf velkomnar til Færeyja.“

Sambönd samkynhneigðra ekki Guði þóknanleg

- Getur þú fært rök fyrir andstöðu þinni við samkynhneigð?

„Flokksbræður mínur leggjast gegn samböndum samkynhneigðra vegna þess að við lítum svo á að þau brjóti í bága við vilja Guðs. Kristileg gildi eru eins og rauður þráður í gegnum stefnu flokksins, meðal annars þeirri að huga að fátækum. Í okkar huga kemur það skýrt fram í biblíunni að hjónabönd samkynhneigðra séu Guði ekki þóknanleg,“ segir Jenis av Rana.

mbl.is