Þarf að breyta lögum um stjórnlagaþing

Frá þjóðfundi sem haldinn var á síðasta ári.
Frá þjóðfundi sem haldinn var á síðasta ári. mbl.is/Kristinn

Þingmenn stjórnarflokkanna í allsherjarnefnd Alþingis hafa lagt fram frumvarp þar sem kveðið er á um ýmsar breytingar á lögum um stjórnlagaþing, sem samþykkt voru í sumar.

Segja þingmennirnir, að í vinnu við undirbúning kosningar til stjórnlagaþings, undirbúning þjóðfundar og stjórnlagaþingsins sjálfs hafi komið í ljós að nauðsynlegt sé að gera nokkrar breytingar á ákvæðum laganna til þess skjóta styrkari stoðum undir framkvæmd þeirra.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta í fyrsta lagi að gerð kjörseðilsins, en þar er m.a. stuðst við ákvæði í finnskum kosningalögum  þar sem gert er ráð fyrir því að kjósendur velji frambjóðendur með því að rita auðkennistölu þeirra á kjörseðilinn.

Í öðru lagi eru lögð til ítarlegri ákvæði um gerð eyðublaðs fyrir tilkynningu um framboð, en við það er miðað að gerð kynningarefnis, þar á meðal um frambjóðendur, taki mið af upplýsingum sem þar komi fram. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um talningu atkvæða og uppgjör kosningarinnar, sem taka m.a. mið af breyttum kjörseðli.

Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um rétt kjörinna fulltrúa á stjórnlagaþingi til leyfis frá störfum sínum á meðan þeir gegna þingstörfum. Loks er í fimmta lagi lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um heimildir forseta Alþingis til þess að fjalla um álitamál sem undirbúningsnefnd stjórnlagaþings og stjórnlaganefnd óska úrlausnar á.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina