Segir makríldeilu geta hindrað ESB-aðild

Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, á skoska þinginu.
Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, á skoska þinginu. Reuters

Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir að embættismenn Evrópusambandsins þurfi að taka harða afstöðu gegn auknum makrílveiðum Íslendinga og Færeyinga og telur að makríldeilan geti jafnvel hindrað aðild Íslands að sambandinu. Skoska blaðið The Scotsman hefur þetta eftir forsætisráðherranum.

„Skoska stjórnin er fremst í flokki þeirra sem krefjast þess að Evrópusambandið bregðist hart við ábyrgðarlausri hegðun Íslendinga og Færeyinga,“ sagði Salmond á skoska þinginu þegar hann svaraði fyrirspurnum þingmanna.

Forsætisráðherrann kvaðst hafa rætt málið við utanríkisráðherra Noregs. „Skotar og Norðmenn eru þær fiskveiðiþjóðir sem verða mest fyrir barðinu á þessu. Við samþykktum að halda áfram að knýja framkvæmdastjóra ESB til að taka harða afstöðu gegn þessari hegðun. Sjávarútvegsráðherra okkar er í reglulegu sambandi við framkvæmdastjóra ESB sem hefur verið fullvissaður um að þetta sé forgangsmál Evrópusambandsins. Og þetta mál hefur verið sett á oddinn í viðræðunum um hugsanlega aðild Íslands,“ hefur The Scotsman eftir skoska forsætisráðherranum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert