Feðgar flýðu land vegna hótana

Feðgarnir fengu lögreglufylgd til Keflavíkur þar sem þeir yfirgáfu landið.
Feðgarnir fengu lögreglufylgd til Keflavíkur þar sem þeir yfirgáfu landið. mbl.is/Júlíus

18 ára piltur af kúbverskum uppruna neyddist í dag til að flýja land ásamt föður sínum vegna ítrekaðra hótana í þeirra garð. Skemmdarverk voru framin á heimili feðganna í gær og þeim hótað lífláti. Báðir eru þeir íslenskir ríkisborgarar, en kveikja málsins virðist vera sú að pilturinn hefur átt vingott við íslenska stúlku.

Tveir menn voru handteknir í dag vegna málsins, annar þeirra er á aldur við unglingspiltinn en hinn er nokkuð eldri að sögn Hákons Sigurjónssonar lögreglufulltrúa í Reykjavík. „Þetta kemur til okkar kasta í dag en þetta er búið að standa í einhvern tíma, ég get ekki fullyrt hversu lengi en það var aðdragandi að þessu," segir Hákon. Mennirnir verði yfirheyrðir í kvöld.

Hákon segir að ekki hafi verið um líkamsmeiðingar að ræða heldur fyrst og fremst hótanir í garð piltsins vegna tengsla hans við íslenska stúlku. Virðist samband þeirra hafa vakið upp annarleg viðhorf og kynþáttafordóma. Pilturinn hefur verið búsettur á Íslandi í áraraðir og er íslenskur ríkisborgari.

„Svo voru framin skemmdarverk heima hjá þessum feðgum að því er virðist eingöngu til þess að vekja ótta hjá þeim,"  segir Hákon. Rúður voru brotnar á heimili þeirra í gærdag og útidyrahurðin brotin upp í nótt.

Feðgarnir tóku þá ákvörðun í dag að flýja land, að minnsta kosti um tíma, þar sem þeir treystu sér ekki til að vera hér öryggis síns vegna á meðan máli er óleyst. Þeir fengu lögreglufylgd til Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert