Hindrunum verið rutt úr vegi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl/Sigurður Bogi

„Það er fagnaðarefni að óvissunni skuli vera lokið enda þótt niðurstaða Hæstaréttar sé auðvitað ekki í samræmi við það sem margir höfðu væntingar um,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands.

„Orð Hæstaréttar eru afdráttarlausari og skýrari afstaða en í þeim dómi, sem féll í héraði. Það er sömuleiðis ljóst, að hefðu samningavextir átt að gilda hefði það orðið skattgreiðendum mjög dýrt enda hefði niðurstaðan komið mjög við fjármálafyrirtækin,“ segir Gylfi sem fagnar þeirri yfirlýsingu sem efnahags- og viðskiptaráðherra kom með eftir dóminn að setja eigi lög sem tryggja eigi jafnræði milli einstaklinga óháð lánasamningum.

Alþýðusambandið hafi á síðustu misserum talað fyrir bættri réttarstöðu skuldara vegna niðurfærslu lána en margt, svo sem óvissa um lögmæti gengistryggðra lána og vaxtakjör þeirra, hafi þar tafið fyrir nauðsynlegum aðgerðum.

„Málin hafa verið á miklu flækjustigi en með niðurstöðu Hæstaréttar er ákveðnum hindrunum til endurreisnar rutt úr vegi,“ segir forseti ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert