Ingibjörg: „Betra að veifa röngu tré en öngu“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hún kom til fundar við þingmenn …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hún kom til fundar við þingmenn Samfylkingarinnar í vikunni. mbl.is/Kristinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa misskilið neitt þegar Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bauð sér að bregðast við niðurstöðu nefndarinnar. 

„Sú spurning hlýtur hins vegar að vakna hvort einbeittur ákæruvilji Atla Gíslasonar og fleiri sé ekki byggður á þeim misskilningi að betra sé að veifa röngu tré en öngu,“ skrifar Ingibjörg á Facebook-síðu sinni, og vísar þar til ummæla sem Atli lét falla í Kastljósviðtali í gærkvöldi.

Þar sagði hann að Ingibjörg hlyti að hafa misskilið stöðu sína þegar hún sendi nefndinni svarbréf sitt. Ráðherrunum fjórum sem hugsanlega verða dregnir fyrir Landsdóm hafi verið gerð grein fyrir því að verið væri að kanna ráðherraábyrgðina og að svör þeirra kynnu að vera notuð í þeim tilgangi.

Yfirlýsing Ingibjargar er svohljóðandi:

„Í Kastljósi Rúv í gær kom fram að Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar virðist líta svo á að ég hafi notið andmælaréttar af því hann skrifaði mér bréf og bauð mér að koma mínum athugasemdum á framfæri. En hvaða athugasemdum? Við hverju? Í bréfi formanns þingmannanefndar til mín dags. 18. maí 2010 segir m.a. ,,Við mat á ráðherraábyrgð er þingmannanefndin ekki bundin af niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Þingmannanefndin vill gefa yður kost á að senda nefndinni athugasemdir, upplýsingar eða svör við niðurstöðum skýrslunnar."

Rannsóknarnefnd Alþingis átti að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Þá átti hún að  ,,leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“ Hver var niðurstaða skýrslunnar í mínu tilviki? Hún var þessi: ,,Að því leyti sem störf einstaklinga í þessum hópi koma hér til nánari athugunar með tilliti til álitaefna um mistök eða vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 eru þannig að mati rannsóknarnefndar ekki forsendur til að fjalla frekar um störf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í embætti utanríkisráðherra.”

Mér var boðið að bregðast við þessari niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og ég gerði það. Ég hafði engin andmæli uppi af þeirri ástæðu að ég var ekki borin neinum sökum. Ég misskildi ekkert. Sú spurning hlýtur hins vegar að vakna hvort einbeittur ákæruvilji Atla Gíslasonar og fleiri sé ekki byggður á þeim misskilningi að betra sé að veifa röngu tré en öngu.“  

mbl.is