„Pólitískt ákæruvald mjög varhugavert"

Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Brynjar Nielsson, formaður Lögmannafélags Íslands, gagnrýnir ákvörðun þingnefndar um að ákæra eigi fyrrverandi ráðherra, í grein sem hann ritar á Pressuna í dag. Segir hann pólitískt ákæruvald af þessu tagi almennt mjög varhugavert.

„Eins og þekkt er í stjórnmálasögunni verður stundum pólitískt umrót, ekki síst í djúpum efnahagskreppum. Og þegar maður heyrir forsætisráðherra segja að þetta sé gert til að sefa almenning og stjórnarþingmann beinlínis segja þetta pólitísk rétthöld og uppgjör við frjálshyggjuna er enn meira áríðandi að breyta þessu fyrirkomulagi. Það segir sig sjálft," skrifar Brynjar.

Nú hefur þingnefnd lagt til við Alþingi að fjórir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir vegna brota á lögum um ráðherraábyrgð. Í því felst, samþykki þingið kærulýsingu nefndarinnar í þingsályktun, að mál gegn þeim verður höfðað fyrir Landsdómi og þess krafist að þeir verði dæmdir til refsingar. Ekki er umdeilt að þessi málsmeðferð er í samræmi við gildandi lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm.

Lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm eru gömul og hafa ekki breyst í aðalatriðum þrátt fyrir að við lifum í gerbreyttu pólitísku og lagalegu umhverfi. Einhverra hluta vegna hefur engin breyting orðið á þrátt fyrir að margir hafi í gegnum tíðina bent á að það væri tímabært. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að þetta fyrirkomulag sé úrelt og stangist jafnvel á við ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, þótt málsmeðferðin sem slík fyrir Landsdómi, eftir útgáfu ákæru, standist sjálfsagt reglur um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Þegar talað er um réttláta málsmeðferð snýr það einnig að rannsókn máls áður en tekin er ákvörðun um ákæru. Um það hefur ekki verið deilt að ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð taka einnig til máls á rannsóknarstigi enda í samræmi við dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Við mat á því hvort umræddir fyrrverandi ráðherrar hafi notið réttlátrar málsmeðferðar þarf að fara aftur til þess tíma sem Alþingi samþykkti lögin um rannsóknarnefnd Alþingis. Samkvæmt þeim lögum var öllum skylt að veita nefndinni upplýsingar og afhenda gögn sem hún óskaði eftir, líka þeir sem til stendur að ákæra núna, án þess að njóta réttarstöðu sakbornings. Rannsókn þingnefndar Atla Gíslasonar er heldur ekki í samræmi við reglur sem gilda um rannsókn sakamála í lögum um meðferð sakamála. Þingnefndin þarf ekki í störfum sínum að gæta að atriðum sem horfa bæði til sýknu og sektar. Ráðherrarnir fyrrverandi hafa ekki réttarstöðu sakborninga við rannsóknina og fá þá stöðu ekki fyrr en þeim hefur verið stefnt fyrir Landsdóm.

Með hliðsjón af þessum staðreyndum er tæplega hægt að halda því fram með góðum rökum að það fólk sem lagt er til að verði ákært hafi notið réttlátrar málsmeðferðar. Til hvers er þá verið að veita sakborningum almennt þessi réttindi samkvæmt lögum um meðferð sakamála ef það er í lagi að ráðherrar sem bornir eru sökum um refsiverða háttsemi njóti ekki þessara réttinda?

Í þessu fyrirkomulagi fer því engin sakamálarannsókn fram áður en tekin er ákvörðun um ákæru. Að fara í sakamálarannsókn eftir að ákæra er gefin út samrýmist ekki hugmyndum mínum og margra annarra um réttláta málsmeðferð. Ég held að öllum sé ljóst að ákæru einni saman fylgir mikið óhagræði, tjón og miski. Hvorki niðurfelling Alþingis á ákæru eftir rannsókn eða gagnaöflun fyrir Landsdómi né sýkna mun breyta því.

Nú er lagaskylda hjá þingmönnum að greiða atkvæði um ákærur á hendur þessum fyrrum ráðherrum og það þýðir ekki að kveinka sér undan því. Hins vegar er ákæruvald mikið vald og vandmeðfarið. Enginn vill ákæra annan nema rannsóknargögn bendi eindregið til sektar. En er það nóg? Viljum við ákæra einhvern sem við teljum að ekki hafi notið sömu réttinda og aðrir sakaðir menn við rannsóknina? Og teljum við að rannsókn þingnefndarinnar sé fullnægjandi til að taka ákvörðun um ákæru? Nú verður hver þingmaður að svara fyrir sig.

Ég held að flestir sem kynna sér málin séu sammála um að þetta fyrirkomulag um ráðherraábyrgð og Landsdóm sé úrelt og óþarft þar sem þingræði er við lýði. Það er ekkert að því að þingið rannsaki embættisfærslur ráðherra og leysi þá undan embætti vegna vanrækslu ef svo ber undir. En að höfða sakamál  til refsingar, án þess að almennra reglna um réttarstöðu sakborninga sé gætt við rannsóknir, gilda önnur sjónarmið."
mbl.is

Bloggað um fréttina