Krafa um kosningar

Þór telur hættu á að önnur búsáhaldabylting brjótist út.
Þór telur hættu á að önnur búsáhaldabylting brjótist út. mbl.is/Kristinn

„Ég held að þessu verði tekið mjög illa og það er komin upp mjög hávær krafa, bæði inn á þingi og hér utan þings, að það verði boðað til kosninga,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um afstöðu almennings til þingmannamálsins. 

„Jóhanna afgreiðir þetta mál að miklu leyti út af borðinu í ræðu sinni og krefst þess einfaldlega að pólitískri ábyrgð á hruninu verði sópað undir teppið. Það er skoðun okkar í Hreyfingunni á hennar ræðu í gær.“

- Hvernig finnst þér það koma heim og saman við málflutning hennar hingað til?

„Það er algerlega á skjön við málflutning hennar hingað til en þau hafa einfaldlega tekið þann pól í hæðina, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, að reyna að koma í veg fyrir að hlutirnir verði gerðir upp sem þarf. Ég held að þessu verði tekið mjög illa og það er komin upp mjög hávær krafa, bæði inn á þingi og hér utan þings, að það verði boðað til kosninga.“

- Hvernig heldurðu að Hreyfingin kæmi út úr kosningum?

„Ég veit það ekki. Við höfum ekkert velt því fyrir okkur. Við lítum ekki á okkur sem stjórnmálamenn til langs tíma. Aðalmarkmið okkar er að almenningur fái að veita stjórnmálamönnum aðhald í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem almenningur getur kallað eftir.

Ef það næst í gegn er ansi stórt skref stigið til að koma í veg fyrir að þetta pólitíska ástand skapist aftur sem verið hefur síðustu áratugi. Ef núverandi ríkisstjórn þráskallast við að sitja án þess að gera upp hrunið kæmi það mér alls ekki á óvart að það yrði önnur búsáhaldabylting,“ segir Þór sem telur reiðina hafa aukist frá því sem var örlagamánuðinn janúar 2009.

„Önnur búsáhaldabylting gæti verið mjög erfið vegna þess að reiðin í samfélaginu er miklu meiri í dag heldur en hún var nokkurn tímann í janúar 2009.“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina