Lifi samtrygging stjórnmálamanna

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi, að kjarninn í ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hafi verið: Lifi samtrygging stjórnmálamanna.

Bjarni hafði áður lýst andstöðu við þingsályktunartillögu meirihluta þingmannanefndar um að ákæra beri fjóra fyrrum ráðherra fyrir landsdómi.

Eygló sagðist ekki geta séð, að heill ríkisins hafi verið stofnað með jafn miklum hætti í hættu og í aðdraganda bankahrunsins. Bjarni sagði hins vegar, að það væri miklum vafa undirorpið að hættan hafi verið fyrirsjáanleg og einnig hefði ekki verið sýnt fram á, að ráðherrar hefðu haft úrræði til að bregðast við.

„Þetta er meira og minna allt eftiráspeki," sagði Bjarni.  

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Bjarna hvort nokkuð væri annað í stöðinni en að boða til nýrra kosninga svo þingmenn gætu endurnýjað umboð sitt og haldið þá áfram með þetta mál. Ljóst væri eftir ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í gær, að stór hluti Samfylkingarinnar sé á móti tillögunni um málshöfðun gegn ráðherrum og stjórnarsamstarfið hangi á bláþræði.

Bjarni sagði að augljóslega þyrfti að breyta um stjórnarstefnu og blása fólki kjark í brjóst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert