Líkur á að stjórnin springi

Það er útlit fyrir enn einn átakavetur á Alþingi.
Það er útlit fyrir enn einn átakavetur á Alþingi. Ómar Óskarsson

„Ég gef þessari ríkisstjórn ekki marga mánuði. Ég gef henni veturinn í mesta lagi. Það er mín skoðun,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur um stöðu stjórnarinnar eftir háværar deilur í þingmannamálinu. Hún telur Atla Gíslason hafa verið niðurlægðan í málinu. 

Aðspurð um stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra kveðst Stefanía meta hana svo að ráðherrann setjist í helgan stein, fari svo að stjórnin springi. Með því að vernda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í málinu taki Jóhanna hagsmuni Samfylkingarinnar fram yfir stjórnarsamstarfið.

Með því að leggja til að aðeins Geir H. Haarde, forsætisráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 til 2009, yrði ákærður hefði Jóhanna komist hjá því „jarðsprengjusvæði“ að þurfa að leggja fram ákærur á hendur Ingibjörgu Sólrúnu.

Málið hið „versta klúður“

„Þetta mál er hið versta klúður. Það var hægt að sjá fyrir að málið yrði mjög erfitt fyrir Samfylkinguna. Jóhanna tekur sér stöðu með Ingibjörgu Sólrúnu til þess að reyna að halda flokknum saman, Samfylkingunni. Við sjáum að fólk virðist vera að fara í uppgjör þar sem er kannski tími til kominn.“

Þá sýni viðbrögðin við þeirri tillögu þingmannanefndarinnar að ákæra beri Björgvin G. Sigurðsson hversu sterk staða hans innan þingflokksins sé.

Gert lítið úr störfum nefndarinnar

Sem kunnugt er fór Atli Gíslason fyrir þingmannanefndinni sem falið var að fjalla um skýrslu þingmannanefndar Alþingis og telur Stefanía að með því að halda því áfram að ekki sé tilefni til ákæra gegn ráðherrunum fjórum sé Jóhanna og Samfylkingin að gera lítið úr störfum nefndarinnar og þar með Atla.

Stefanía bendir á að brestir séu í stjórnarsamstarfinu í mörgum málum og nefnir Magma-málið og andstöðu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra við aðildarumsóknina að ESB.

Hún telur óvissu ríkja um hvað myndi taka við fari svo að stjórnin springi.

„Ég held að það sé enginn sérstakur áhugi fyrir stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn innan Samfylkingarinnar.“

Allt upp í loft

En er svigrúm fyrir annan Besta flokk?

„Þetta er allt upp í loft. Það er eiginlega það sem maður getur sagt. Í rauninni furðar maður sig á því hvað þetta var vanhugsað [...] Það hefði verið langbesta niðurstaðan að þingmannanefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að það ætti aðeins að ákæra einn mann, Geir H. Haarde og þá á þeirri forsendu að hann hefði verið forsætisráðherra og að þetta væri því á hans ábyrgð.

Hér hugsa ég dæmið út frá strategískri hugsun ef ég væri Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon og ætlaði að halda ríkisstjórninni saman. Það er greinilega algert jarðsprengjusvæði að draga Ingibjörgu Sólrúnu þarna inn. Það er greinilegt að Björgvin á sterka talsmenn í þingflokknum.

Nú er formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra búinn að taka afstöðu með Ingibjörgu Sólrúnu og segir raunar að þetta sé ekki á rökum reist gagnvart hinum. Þetta veldur tilfinningaróti og mönnum finnst að þeir hafi verið rassskelltir. Formaður VG í nefndinni, Atli Gíslason, er lögmaður og telur sig hafa unnið gott starf. Þetta er mjög auðmýkjandi fyrir hann og allt þetta samstarf, ofan á allt sem á undan er gengið.“

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir. mbl.is
mbl.is