30 milljónir á mánuði til að dæla sandi

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/RAX

Ögmundur Jónasson, samgönguráðherra, ætlar að leggja til við ríkisstjórnina á föstudag að 30 milljónum króna verði varið á mánuði frá nóvember fram til marsloka til að dæla sandi úr Landeyjahöfn. 

Þetta kemur fram í viðtali við Ögmund í vikublaðinu fréttum. Haft er eftir Ögmundi, að til að mæta kostnaði geri hann ráð fyrir að fargjöld verði hugsanlega hækkuð tímabundið.

Ögmundur segir, að sandburður við Suður­ströndina hefði verið meiri en gert var ráð fyrir en frá sínum bæjardyrum séð væru aðrir kostir en Landeyjahöfn neyðarúrræði.

„En því er ekki að neita að náttúruöflin hafa sett margt úr skorðum. Gert var ráð fyrir 25 milljónum á ári í dæl­ingu í Landeyjahöfn og 40 milljónum fyrsta árið vegna byrjunarörðu­gleika,“ sagði Ögmundur en nú væri ljóst að það dygði engan veginn. „Óvenjuleg vindátt og eldgos valda því að meiri sandur berst inn í höfnina en áætlað var og þess vegna er unnið að því að leigja öflugt sanddæluskip. Þess vegna ætla ég að leggja til við ríkisstjórnina á morgun að veita 30 milljónum í dælingu á mánuði frá nóvember og fram í marslok.“ 

Aðspurður um nýtt skip sagði Ögmundur að það væri seinni tíma verkefni. „Framtíðin liggur í nýju skipi en ég legg áherslu á að engir peningar eru til. Fólk er búið að fá nóg af stjórnmálamönnum sem lofa upp í ermina á sér þannig að ég mun fara mér hægt. Landeyjahöfn hefur skipt sköpum fyrir Vest­mannaeyinga og nú verðum við að einbeita okkur að því að halda henni opinni alla tólf mánuði ársins,“ sagði Ögmundur við Fréttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert