„Lýsa ótrúlegri vanþekkingu“

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ómar

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir að breytingar sem ríkisstjórnin hafi gert á skattkerfinu lýsi ótrúlega mikilli vanþekkingu á efnahagslífinu. Skattkerfið hafi verið fært áratugi aftur í tímann, einfaldleika þess og gagnsæi hafi verið fórnað.

Vilmundur sagði þetta á opinn fund Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands um skattamál fyrirtækja sem nú stendur yfir. Þar lögðu samtökin fram ítarlegar tillögur að umbótum á skattkerfinu sem miða að því að efla fjárfestingar, stuðla að sköpun nýrra starfa og bæta lífskjör landsmanna.

Vilmundur sagði að ljóst hefði verið að eftir bankahrunið hefði þurft að grípa til samstilltra aðgerða til að bregðast við tekjufalli og stórauknum vaxtakostnaði ríkissjóðs.

„Okkur, í forystu atvinnulífsins skorti hins vegar hugmyndaflug til að ímynda okkur að ríkisstjórnin myndi færa skattkerfið áratugi aftur í tímann, fórna einfaldeika þess og gagnsæi, gera það ósamkeppnisfært við nálæg ríki og taka upp að nýju skatta sem eru óréttlátir og flest nálæg ríki hafa losað sig við. Þar að auki munu margar þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd ekki færa ríkissjóði auknar tekjur heldur þvert á móti draga úr skatttekjum ásamt því að draga úr umsvifum í þjóðfélaginu og um leið seinka fjárfestingum og þeim bata sem efnahagslífið þarf svo sárlega á að halda. 

Engin tilraun var gerð til þess að hlusta á þær aðvaranir sérfræðinga og hagsmunaaðila að kerfið yrði flóknara, eftirlit umfangsmeira og dýrara og ekki síst að hættan á undanskotum og mistökum ykist. Þetta er nánast eins og að horfa inn í postulínsbúð þar sem óð fílahjörð hefur leikið lausum hala,“ sagði Vilmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina