Ekki tillaga um breytingar

Atli Gíslason ræðir við fréttamenn eftir fund nefndarinnar í dag.
Atli Gíslason ræðir við fréttamenn eftir fund nefndarinnar í dag. mbl.is/GSH

Meirihluti þingmannanefndar, sem fjallað hefur um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, leggur ekki til breytingar á þingsályktunartillögum um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum.  Þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni standa að áliti með þingmönnum VG, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni skila hins vegar séráliti um tillögurnar tvær og telja að saknæmisskilyrði skorti til að hægt sé að sækja fyrrum ráðherra til saka fyrir landsdómi. 

Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður nefndarinnar, sagði við mbl.is eftir fund nefndarinnar í dag, að allir nefndarmenn stæðu saman að áliti um skýrslu nefndarinnar og þær breytingartillögur, sem fram komu á Alþingi þegar skýrslan var lögð fram. Farið væri yfir allar tillögurnar og veitt um þær umsögn.

Þá hefðu komið frá nefndinni tvö álit um þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum. Að öðru álitinu stæðu sjö þingmenn, þeir þingmenn fimm, sem stóðu að þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn fjórum ráðherrum og þeir tveir sem lögðu fram tillögu um að þrír ráðherrar yrðu ákærðir. Atli sagði, að þessir sjö þingmenn gerðu ekki tillögur um neinar breytingar á tillögunum utan eina tæknilega breytingu sem lýtur að númeri lagagreinar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram sérálit. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem situr í þingmannanefndinni, sagði við mbl.is, að í nefndaráliti þeirra Unnar Brár Konráðsdóttur sé rökstutt hvers vegna þær standa ekki að þingsályktunartillögum um málshöfðun gegn ráðherrum.

„Við teljum að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt og því eigi ekki að ákæra ráðherra fyrir   brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi," sagði Ragnheiður.

Hún segir, að þær séu hins vegar flutningsmenn skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem verulegur áfellisdómur sé felldur yfir ýmsu, meðal annars verkferlum á sölu og einkavæðingu bankanna.

„Við tökum undir og segjum að mistök hafi verið gerð á ýmsum sviðum í hagstjórnarferlinu. Við tölum undir að þetta er áfellisdómur yfir stjórnsýslu og formfestu og verklagi. Við erum að stórum hluta sammála, þingmenn þessarar nefndar, um það sem við getum getum dregið lærdóm af og betrumbætt. Við erum að stærstum hluta sammála um það sem miður fór og hvernig við eigum að draga af því lærdóm en það skilur á milli þegar kemur að því hvort brot ráðherra séu refsiverð með þeim hætti að saknæmisskilyrði séu uppfyllt," sagði Ragnheiður.  

Málsmeðferð fyrir dómi verður réttlát

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sendi frá sér ýtarlega greinargerð þar sem hún gagnrýndi þingmannanefndina og hafnaði rökum hennar um ákæru á hendur henni. Atli sagði um þetta, að Ingibjörg Sólrún vísaði til 70. greinar stjórnarskrárinnar sem fjallaði um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

„Ef þessar þingsályktunartillögur verða samþykktar þá verður sú málsmeðferð réttlát því saksóknari Alþingis, sem kann að verða kosinn, mun afla sönnunargagna, fara í dómprófanir og þar fram eftir götunni. Við lýsum því ýtarlega í okkar áliti," sagði Atli.

Gert er ráð fyrir að álitum þingmannanefndarinnar verði dreift síðdegis á Alþingi og umræða um skýrslu nefndarinnar og tillögurnar tvær hefjist að nýju á mánudag á Alþingi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert