Alvarleg vanræksla og stórkostlegt gáleysi

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem var við völd árin 2007 til 2009 hefði sýnt af sér alvarlega vanrækt og stórkostlegt gáleysi.

Þingmenn hafa í dag rætt um tillögur frá meirihluta þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um að höfða mál á hendur fyrrum ráðherrum fyrir landsdómi.  Gert er ráð fyrir því, að greidd verði atkvæði um tillögurnar á morgun eða miðvikudag.

Mörður sagðist ekki hafa komist að niðurstöðu um sekt allra þeirra fjögurra ráðherra, sem lagt er til að mál verði höfðað gegn fyrir landsdómi.  Hins vegar falli öll vötn að þess fjarðar, að í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde hafi verið sýnt stórkostlegt gáleysi og alvarleg vanrækt í efnahagsmálum í skilningi laga.

Mörður hvatti þingmenn m.a. til að íhuga vandlega hverskonar andvaraleysi, gáleysi og vanrækt hefði falist í því, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra og oddviti Samfylkingarinnar, hefði sagt í ræðustóli Alþingis 2. september 2008, mánuði fyrir hrun, í umræðu um skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál, að eitt af ráðunum til að leysa lausafjárvanda bankanna, sem þá var, væri að stofna fleiri Icesave-reikninga í útlöndum.

„Þeir geta haldið áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum," hafði Mörður eftir Ingibjörgu Sólrúnu. „Hvernig fellur þetta að alvarlegum athugasemdum, sem löngu höfðu borist um þessa starfsemi frá Amsterdam og Lundúnum, frá norrænu seðlabönkunum?" spurði Mörður síðan.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að lög um landsdóm og ráðherraábyrgð séu ekki úrelt og enginn vafi léki á því að þeir, sem stefnt er fyrir landsdóm, njóti fullra réttinda.

Valgerður sagði að ráðherradómi fylgi hin mesta ábyrgð.  Hún sagðist fallast á þá niðurstöðu sjö af níu nefndarmönnum í þingmannanefnd um að ástæða sé til að höfða mál gegn ráðherrum.

mbl.is

Bloggað um fréttina