Atkvæði um málshöfðun í dag

Frá Alþingi í gær.
Frá Alþingi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Atkvæði verða væntanlega greidd á Alþingi eftir hádegi í dag um tvær þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum.  Þingfundur hefst klukkan 10:30 og eru sex þingmenn á mælendaskrá en síðari umræða um tillögurnar hófst á Alþingi í gær.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í morgunþætti Rásar 2 í morgun, að gert yrði hlé á þingfundi eftir að mælendaskrá er tæmd og síðan muni atkvæðagreiðslan fara fram.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að flest hafi í gærkvöldi bent til þess í að þingsályktunartillaga meirihluta þingmannanefndar þeirrar sem kennd er við Atla Gíslason, þingmann VG, yrði felld við atkvæðagreiðslu þingsins. 

Þó var talið að ef meirihluti þingflokks Samfylkingar myndi kjósa með því að Geir H. Haarde yrði ákærður yrðu hinir þrír fyrrverandi ráðherrarnir einnig ákærðir.

Ráherrarnir fyrrverandi sem um ræðir eru auk Geirs, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi banka- og viðskiptaráðherra.

Allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er andvígur ákærum á hendur ráðherrunum fyrrverandi. Sama máli er talið gilda um yfir helming þingflokks Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks, þannig að öll atkvæði VG og Hreyfingarinnar megi sín lítils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert