Kaus öðruvísi og er stolt af því segir Jónína Rós

Jónína Rós Guðmundsdóttir.
Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á bloggvef sínum að hún hafi greitt atkvæði öðru vísi en allir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og hún sé stolt af því að hafa verið sjálfri sér samkvæmt allt til enda. Jónína Rós vildi ákæra alla fjóra fyrrum ráðherrana sem lagt var til að mál yrði höfðað gegn.

„Dagurinn í gær var sérstakur og öllum alþingismönnum erfiður.  Það er komin niðurstaða í ráðherraábyrgðarmálið – hún er ekki mín niðurstaða – en hún er lýðræðisleg og ég hlíti henni.  Það er ekki óeðlilegt að maðurinn í brúnni svari fyrir verk áhafnar sinnar ekki síst þar sem hann hafði verið lengi í brúnni eða nálægum stjórnpöllum en fleiri bera ábyrgð að mínu mati, en þingið hefur talað og það gildir.

Nú er lífið eftir tillögur um málshöfðun hafið og lykilatriði er að þegar við ræðum fjárlög og erfiðan niðurskurð munum við þingmenn stilla kúrsinn og ákveða  hvert við viljum stefna með íslenskt samfélag og muna stöðugt að leiðarljós okkar er og verður hagsmunir almennings.

Aðeins að lokum þetta með flokkslínurnar í atkvæðagreiðslunni í gær – ég greiddi atkvæði öðruvísi en allir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og er stolt af því að hafa verið sjálfri mér samkvæm allt til enda - það að ekki var flokkslína varð til þess að allir þurftu að kynna sér málavöxtu í smáatriðum til að rökstyðja og ígrunda málflutning sinn og það var hollt og gott," skrifar Jónína Rós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert