Nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga

Kort af sameinuðu sveitarfélagi á Vestfjörðum.
Kort af sameinuðu sveitarfélagi á Vestfjörðum.

Nefnd, sem  kannað hefur sameiningarkosti sveitarfélaga í öllum landshlutum, hefur sett fram fyrstu hugmyndir um sameiningarkosti. Verður fjallað um þær á landsþingi  Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nú stendur á Akureyri.

Umræðuskjalið hefur að geyma ábendingar um sameiningarkosti í öllum landshlutum. Á Vesturlandi eru settir fram þrír kostir: Eitt sveitarfélag eða tvö og þá yrðu Akranes og Hvalfjarðarsveit saman og hins vegar Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Dalabyggð, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppur.

Á Vestfjörðum eru settir fram nokkrir kostir, þar á meðal að öll sveitarfélögin verði sameinuð, og að  Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur sameinist annars vegar og hins vegar Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð. Einnig er varpað fram öðrum kostum, meðal annars að þrjú sveitarfélög sameinist í aðra landshluta.

Á Norðurlandi vestra er einkum bent á tvo kosti, annars að vegar sveitarfélögin í Húnavatnssýslum sameinist og hins vegar sveitarfélögin tvö í Skagafirði og á Norðurlandi eystra eru nokkrir kostir settir fram, til dæmis að sameina sveitarfélög við Eyjafjörð og síðan sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum og settir eru fram nokkrir fleiri valkostir.

Þá er bent á mögulega sameiningu allra sveitarfélaga á Austurlandi en á vegum Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi hefur slík sameining verið til náinnar skoðunar. Fleiri kostir eru settir fram og á Suðurlandi er sett fram hugmynd um tvö sveitarfélög til þrjú sveitarfélög. Á Suðurnesjum er annars vegar bent á að sameina mætti öll fimm sveitarfélögin í eitt eða að Grindavíkurbær, Sandgerði og sveitarfélögin Garður og Vogar sameinist og þannig verði tvö sveitarfélög á svæðinu.

Höfuðborgarsvæðið er ekki undanskilið í umræðuskjalinu og þar bent á mögulega sameiningu Seltjarnarness, Kjósarhrepps og Reykjavíkur og hugsanlega sameiningu Álftaness og Garðabæjar.

Umræðuskjal um sameiningu sveitarfélaga

mbl.is