Auðmenn græða á uppboðum

Þór segir húsnæðislánin hafa verið tekin yfir af nýju bönkunum …
Þór segir húsnæðislánin hafa verið tekin yfir af nýju bönkunum á miklum afslætti sem almenningur fái ekki að njóta. mbl.is

Nýju bankarnir keyptu húsnæðislán af þrotabúum gömlu bankanna á miklum afslætti en ganga hart fram í innheimtu gamla höfuðstólsins. Þetta fullyrðir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem segir þetta gert í þágu kröfuhafa og til að skapa svigrúm til afskrifta auðmanna með vitund stjórnvalda.

„Þetta er ógeðslegt. Ég skil ekki hvernig stjórnvöld geta látið þetta viðgangast,“ segir Þór um stefnu bankanna gagnvart skuldurum húsnæðislána.

Eins og kunnugt er hyggjast bankarnir bjóða upp fasteignir í stórum stíl á næstunni. Þór gagnrýnir áformin harðlega og segir að bankarnir fái peninga sem þeir notuðu til að fjármagna kaup á lánunum til baka við söluna á uppboði, jafnvel þótt fasteignin sé seld undir markaðsverði. Bankarnir geti einnig selt umræddar fasteignir þegar betur árar með hagnaði.

Um helmingur afskrifaður að jafnaði

Aðspurður hversu stór hluti húsnæðislána var afskrifaður við yfirfærsluna í nýju bankanna segir Þór að rætt hafi verið um 50% að jafnaði á sínum tíma. Því megi ætla að helmingur lánanna eins og þau líta út í dag sé í raun þóknun nýju bankanna. Sú þóknun sé nýtt í þágu kröfuhafa með því að auka hagnað bankanna og til að afskrifa skuldir stórra viðskiptavina, öðru nafni auðmanna, að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Inntur eftir þeim orðrómi að Lilja Mósesdóttir muni ganga í Hreyfinguna á næstu dögum segir Þór ekkert hæft í því. Lilja vilji ekki yfirgefa VG enda líti hún svo á að það myndu vera svik við kjósendur. Hann segir þau Lilju talast reglulega við og að hún taki undir þessa greiningu á húsnæðislánunum. Þau séu sammála um að þetta sé gert að kröfu AGS sem vilji fremur styrkja bankanna og fyrirtæki sem þeir eru í viðskiptum við með afskriftum en að tryggja að skuldarar geti samið um húsnæðislán á nýjum grunni.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert