Metfjöldi á Austurvelli

Um 5.000 manns voru saman komnir á Austurvelli fyrir stundu, að sögn Geirs Jóns Þórissonar, lögreglustjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Geir Jón segir ekki vitað um meiðsl á fólki en hann hvetur mótmælendur eindregið til að hætta að sprengja flugelda við lögreglumenn og aðra mótmælendur. 

Geir Jón segir slíkar sprengingar geta valdið slysum og augnskaða.

Hann segir um 5.000 manns á Austurvelli og að 1.000 til 2.000 manns séu á ferðinni í götunum í kring. Þetta sé fjöldi sem slái fyrri met úr búsáhaldabyltingunni.

Þá hafi golfkúlum verið kastað að lögreglumönnum en nú rétt í þessu berast miklar drunur frá sprengingum inn í anddyri Hótel Borgar.

Kasta golfkúlum í lögreglu

Geir Jón segir stórhættulegt að kasta golfkúlum og hvetur mótmælendur til að sýna stillingu og ganga friðsamlega fram.

„Þetta hefur gengið alveg ágætlega. Þetta er mikill fjöldi, skiptir þúsundum. Ég held að það megi alveg segja að 5.000 manns hafi verið hér á vellinum sjálfum en síðan eru 1.000 til 2.000 hér í kring. Það er mikill straumur af fólki inn og út af svæðinu. Þetta er langmesti fjöldi sem við höfum séð alveg síðan hér hófust mótmæli,“ segir Geir Jón og á við tímabilið frá bankahruninu 2008.

Hann varar sem fyrr segir við því að golfkúlum sé grýtt að lögreglunni.

„Það er hættulegt að fá golfkúlur í höfuðið. Þess vegna erum við að setja upp hjálmana.“ 

- Nú er mörgum mjög heitt í hamsi. Hvað viltu segja við mótmælendur?

„Ég skil reiðina ósköp vel. Reiðin þarf að beinast í skýran farveg, baráttu fyrir málstað sem fólk heldur á lofti. Ofbeldi, hins vegar, það skilar aldrei neinu. Það er staðreynd. Það er hins vegar eðlilegt að fólk sé að mótmæla. Það fylgir lýðræðislegu samfélagi,“ segir Geir Jón Þórisson.

Búsáhöld voru áberandi á Austurvelli í kvöld.
Búsáhöld voru áberandi á Austurvelli í kvöld. mbl.is/Ómar
Þúsundir manna eru á Austurvelli.
Þúsundir manna eru á Austurvelli. mbl.is/Ómar
Eldur hefur logað á miðjum Austurvelli í kvöld.
Eldur hefur logað á miðjum Austurvelli í kvöld. mbl.is/Ómar
Fólk á öllum aldri er á Austurvelli.
Fólk á öllum aldri er á Austurvelli. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert