Mikilvægt að ná samstöðu

Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Páll Árnason ræða …
Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Páll Árnason ræða við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Jón Pétur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur ólíklegt að myndun þjóðstjórnar muni leysa þann vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Það sé hins vegar mikilvægt að stjórnvöld nái samstöðu með stjórnarandstöðunni og hagsmunaðilum til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja.

„Við stöndum frammi fyrir því núna að þetta er einn erfiðasti vetur sem við erum að ganga í gegnum, einfaldlega vegna þess að fjárlögin eru líka mjög erfið. Við höfum verið að skera niður sl. tveimur árum og nú erum við komin ansi langt í niðurskurðinum. Hann verður sársaukafyllri en ella,“ sagði Jóhanna að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

„En ég er sannfærð um það ef við náum samstöðu með stjórnarandstöðunni, náum góðum samráði með hagsmunasamtökunum og aðilum vinnumarkaðarins þá ættum við að geta unnið okkur út úr þessu. Ég held að fólkið á Austurvelli hafi verið að kalla eftir slíkri samstöðu; það var ekki bara að verið að mótmæla ríkisstjórn heldur þinginu líka fyrir vinnubrögð þar,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna segir að þetta verði að gerast hratt. Það sé mikil reiði í samfélaginu og mikil óánægja líkt og hafi komið skýrt fram á Austurvelli í gær. Því sé brýnt að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan setjist saman til að fara yfir stöðu mála.

„Við verðum að taka þessi skilaboð til okkar. Ekki bara við ríkisstjórnarborðið heldur stjórnmálamenn í heild sinni.“

Að loknum blaðamannafundi í Stjórnarráðinu hófst fundur fimm ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra, dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra, þar sem rætt var um skuldavandann. 

Jóhanna segir að stjórnarandstaðan og Hagsmunasamtök heimilanna verði einnig fengin að borðinu, auk aðila vinnumarkaðarins og bankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert