Ólöglegar regnhlífar?

Sruli Rechts.
Sruli Rechts. ljósmynd/Marinó Thorlacius

Ísraelski vöru- og fatahönnuðurinn Sruli Recht, sem hefur verið búsettur hér á landi frá 2005, hefur verið ákærður fyrir brot á vopnalögum með því að flytja inn fjögur hnúajárn sem hann nýtti sem handföng á regnhlífar. Sruli neitar sök og segir að þó að handföngið líti út eins og hnúajárn séu þau það í raun ekki.

Regnhlífarnar hafa selst vel, einkum í New York. Sruli segir að hver regnhlíf kosti 225 evrur, um 35.000 krónur, auk sendingarkostnaðar.

Í samtali við mbl.is sagði Sruli að hann hefði framleitt regnhlífarnar í 5-6 ár, án athugasemda. Eftir að kreppan skall á hefði tollurinn skyndilega byrjað að opna allar sendingar sem hingað bárust, væntanlega í von um að afla fjármuna fyrir ríkið, og þá hefðu vandræðin byrjað. Í sumar hefði hann fengið tilkynningu frá tollinum um að hann gæti ekki fengið hnúajárnin afhent nema hann framvísaði vopnaleyfi. Hjá tollinum hefði hann fengið leiðbeiningar um hvernig ætti að afla sér slíks leyfis og það gerði Sruli. Þegar hann gat framvísað leyfinu hjá tollinum fékk hann hnúajárnin loks afhend. En þar með voru vandræðin rétt að byrja.

 „Stuttu síðar kom lögreglan til mín og sagði að ég mætti ekki vera með hnúajárnin. Ég benti þeim á að ég væri með leyfi en lögreglumaður sagði þá að leyfið væri aðeins fyrir einu hnúajárni, ekki fjórum,“ sagði Sruli. Lögreglan hafði engar skýringar á því hvers vegna tollurinn hafði afhent fjögur hnúajárn, úr því að leyfið var aðeins fyrir einu slíku. Aðspurður sagðist hann helst ekki vilja ræða hversu mörg hnúajárn hann hefði flutt inn áður en lögreglan komst í spilið.  

Ákæra gegn Sruli var gefin út í ágúst og aðalmeðferð í málinu fór fram í dag. Sruli neitar sök og bendir á að þótt umrædd hnúajárn líti út fyrir að vera hnúajárn og þar með vopn, séu þetta alls ekki hnúajárn. Hnúajárnin hans séu sérframleidd. Þau séu úr áli og vegi aðeins um áttunda hluta þess sem alvöru hnúajárn vega. Þar að auki séu þau sérstaklega framleidd til að festa á regnhlífar og þegar búið sé að því sé ómögulegt að beita þeim eins og vopni. „Hamar væri áhrifaríkara vopn,“ sagði hann. 

Þá myndi enginn með réttu ráði kaupa sér regnhlíf á 225 evrur til að nota hnúajárnið sem vopn og benti hann á að erlendis kosti hnúajárn oft um 5 evrur. Regnhlífarnar væru reyndar ekki til sölu hérlendis en líklega hefði hann selt um 50-100 stykki til útlanda.

 „Þegar ég sel regnhlíf kemur peningur til Íslands. Allt sem ég geri og sel aflar gjaldeyris,“ sagði hann. Regnhlífarnar væru ekki lengur framleiddar hér heldur í Kína og Sruli benti á að nú fengju Íslendingar ekki lengur greitt fyrir að setja þær saman, pakka þeim og senda. Fimm manns starfa á vinnustofu hans þessa stundina, allir í fullri vinnu. Hann vonast eftir sýknu. 

Regnhlíf með handfangi eins og hnúajárn. Eða er það hnúajárn?
Regnhlíf með handfangi eins og hnúajárn. Eða er það hnúajárn?
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert