Verða 73 þúsund heimili eignalaus?

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna mætir á fund með ráðherrum í dag
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna mætir á fund með ráðherrum í dag mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Stjórn VR hefur lýst yfir stuðningi við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilanna. Samkvæmt grein á vef samtakanna stefnir í að 73 þúsund íslensk heimili verði eignalaus í árslok 2011. Stjórn samtakanna ræðir aðgerðir til bjargar heimilunum við ráðherra í dag.

Að sögn Friðriks Ó. Friðrikssonar, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna, skiptir stuðningur VR gríðarlega miklu máli enda um eitt stærsta stéttarfélag landsins að ræða. Fjórir stjórnarmenn í HH eiga fund með forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og aðra lykilráðherra í dag þar sem farið verður yfir stöðu heimilanna í landinu og leiðir til að bjarga þeim úr skuldavanda sem við þeim blasir. Undanfarið hefur stjórn HH rætt við þingflokkana og verður þeirri vinnu haldið áfram.

Í grein sem Agnar Jón Ágústsson ritar á vef HH kemur fram að fyrir árslok 2011 verði 73 þúsund heimili á Íslandi eignalaus.

Í byrjun árs 2008 áttu 73.000 fjölskyldur húsnæði metið á 1.830 milljarða. en húsnæðisskuldir að upphæð 861 milljarða. Samkvæmt heimildum Seðlabanka Íslands voru heildarskuldir heimila hins vegar 1.550 milljarðar í byrjun árs. Eiginfjárhlutfall þessara 73.000 fjölskyldna var 54% í byrjun 2008, lækkaði 40% í árslok 2008 og lauslega áætlað, verður eiginfjárhlutfall þessara heimila uppurið 2011 miðað við spá um verðbólgu og fasteignaverð á næsta ári.

80% af nauðungasölum knúnar fram af ríkissjóði ekki bönkunum

Að sögn Friðriks er staðan víða afar slæm og ákveðin öfugmæli í gangi. „Nú er vísað til umboðsmanns skuldara en samkvæmt okkar upplýsingum þá hafa einungis tuttugu mál verið afgreidd frá því hann tók við fyrir tveimur mánuðum. Við erum að tala um þörf fyrir að afgreiða þúsundir ef ekki tug þúsundir mála strax eða á næstunni," segir Friðrik.

Hann segir að samtökin hafi fengið ábendingar um að 80% af þeim nauðungasölum sem eru yfirvofandi séu knúnar fram af opinberum aðilum, ekki bönkunum. Það er ríkissjóði Íslands. Það skjóti skökku við að á sama tíma sé ábyrgðinni varpað alfarið á bankana af ríkisstjórn Íslands. 

Það eru viss öfugmæli í þessu og menn vísa ábyrgðinni hver á annan sem náttúrulega gengur ekki upp, segir Friðrik.

Verðmæti fasteigna hefur minnkað um 370 milljarða og skuldir hækkað um 417 milljarða

Í grein Agnars á vef HH kemur fram að í byrjun árs 2008 nam heildarverðmæti íbúðareigna samkvæmt Þjóðskrá Íslands um 2.430 milljörðum. Skuldir í verðtryggðum- og erlendum lánum var samtals um 1.030 milljarðar árið 2008. Um 100.000 heimili voru skráð fyrir íbúðaeign og þar af skulduðu 27.000 heimili ekkert í eigin húsnæði.

Verðmæti fasteigna stendur nú í um 2.060 milljörðum og hefur lækkað um 370 milljarða á sama tíma og skuldir hafa hækkað um 417 milljarða. Aðrar peningalegar eignir hafa einnig lækkað við bankahrunið, og töpuðu 56.000 einstaklingar 183 milljörðum í hlutabréfum fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja sem skráð voru í Kauphöll Íslands. Þá er ótalið aðrar eignir sem lækkað hafa í verði eða tapast vegna hrunsins," segir ennfremur í grein Agnars á vef Hagsmunasamtaka heimilanna.

Það stefnir í að 73 þúsund íslensk heimili verði eignalaus …
Það stefnir í að 73 þúsund íslensk heimili verði eignalaus eftir rúmt ár mbl.is
Frá fundi stjórnarmanna Hagsmunasamtaka heimilanna og ráðherrum í stjórnarráðsbyggingunni í …
Frá fundi stjórnarmanna Hagsmunasamtaka heimilanna og ráðherrum í stjórnarráðsbyggingunni í dag mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is