Héraðsdómur segir regnhlífar löglegar

Umbuster regnhlífin.
Umbuster regnhlífin. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ísraelska vöru- og fatahönnuðinn Sruli Recht af ákæru um vopnalagabrot. Ákæran kom til vegna fjögurra hnúajárna sem hann nýtti sem handföng á regnhlífar. Í niðurstöðu dómsins segir að ekki verði séð að regnhlífar Sruli séu hættulegri en hverjar aðrar.

Fram kemur í dómnum að dómari málsins hafi skoðað og handleikið regnhlíf sem um ræðir, með handfangi í líki hnúajárns. Segir að ekki liggi fyrir hvað handfangið myndi vega eitt og sér, en það sé gert úr áli og ljóst að um mun léttari grip en venjulegt hnúajárn er að ræða. „Þá verður ekki séð að meiri hætta stafi af svonefndri Umbuster regnhlíf með handfangi, en af regnhlífum almennt.“

Þótti dómara málsins því handföngin hvorki ein og sér, né áföst regnhlífinni, bera með sér þá hættueiginleika að teljist vopn í skilningi vopnalaga. Þá sé ekki tilefni til að ætla að fyrirhugað sé að nota þau í þeim tilgangi sem í ákvæðinu greinir. Var hann því sýknaður og málsvarnarlaun verjanda Sruli greiddar úr ríkissjóði, rúmar 250 þúsund krónur.

Fékk leyfi fyrir hnúajárni

Í samtali við mbl.is nýverið sagði Sruli að hann hefði framleitt regnhlífarnar í 5-6 ár, án athugasemda. Eftir að kreppan skall á hefði tollurinn skyndilega byrjað að opna allar sendingar sem hingað bárust, væntanlega í von um að afla fjármuna fyrir ríkið, og þá hefðu vandræðin byrjað. Í sumar hefði hann fengið tilkynningu frá tollinum um að hann gæti ekki fengið hnúajárnin afhent nema hann framvísaði vopnaleyfi. Hjá tollinum hefði hann fengið leiðbeiningar um hvernig ætti að afla sér slíks leyfis og það gerði Sruli. Þegar hann gat framvísað leyfinu hjá tollinum fékk hann hnúajárnin loks afhend. En þar með voru vandræðin rétt að byrja.

„Stuttu síðar kom lögreglan til mín og sagði að ég mætti ekki vera með hnúajárnin. Ég benti þeim á að ég væri með leyfi en lögreglumaður sagði þá að leyfið væri aðeins fyrir einu hnúajárni, ekki fjórum,“ sagði Sruli. Lögreglan hafði engar skýringar á því hvers vegna tollurinn hafði afhent fjögur hnúajárn, úr því að leyfið var aðeins fyrir einu slíku.

mbl.is

Bloggað um fréttina