Reyknesingar hóta aðgerðum

Fjölmenni er á borgarafundi um atvinnumál sem nýstofnuð Samtök atvinnurekenda …
Fjölmenni er á borgarafundi um atvinnumál sem nýstofnuð Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi halda í Stapanum i Reykjanesbæ. mbl.is/Árni Sæberg

Opnum borgarafundi um atvinnumál í Reykjanesbæ er nú lokið. Stuttar umræður voru í lok fundarins þar sem m.a. tók til máls Konráð Lúðvíksson læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og gagnrýndi fyrirætlanir um niðurskurð og flutning sjúklinga til Landspítalans. Konráð var fagnað með standandi lófataki.

Þá var í lok fundar samþykkt ályktun þar sem krafist var samstöðu ríkisstjórnar, sveitastjórna og atvinnurekenda um hnökralausa atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. „Velferð er ekki sjálfgefin, hún byggir á grunni heilbrigðs atvinnulífs. Reyknesingar hafa fengið sig fullsadda af óeiningu ráðamanna, atvinnuleysi, gjaldþrotum, nauðungarsölum, endalausum töfum og aðgerðarleysi,"  segir í ályktun fundarins.

„Reyknesingar eru að eiga við risavaxið vandamál. Atvinnuleysi á Reykjanesi hefur verið það mesta á landinu og hér hafa flest nauðungaruppboð átt sér stað. Reyknesingar eru ekki einungis að eiga við hrunið sjálft heldur einnig fortíðarvanda frá 2006 þegar herinn fór og á annað þúsund störf gufuðu upp."

Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, sem stóðu fyrir fundinum í kvöld, beina því til stjórnvalda að tekið verði á skuldavanda heimilanna þegar í stað. Fyrsta skrefið sé að stöðva nauðungarsölur og gjaldþrotameðferðir þar sem því verði við komið, en fara heldur þá leið að gera skuldir upp með veðsettum eignum og afskrifa afganginn. Skuldurum verði síðan boðið að leigja eignirnar. Tómar byggingar hjálpi engum og fjölskyldur og einstaklingar sem losnað hafi undan skuldaklafa séu mun líklegri til að skapa verðmæti og stuðla að betra efnahagslífi.

„Fyrst og síðast er þess krafist að atvinnurekendur og hið opinbera gangi í þessu mál og klári þau þegar í stað. Ef engin hreyfing kemst á hlutina innan 3 vikna, mun verða gripið til róttækari aðgerða," var ályktað í lok fundarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert