Niðurfærsla rædd áfram í vikunni

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Kristinn Ingvarsson

„Reiði fólks er réttmæt þegar það horfir upp á afskriftir hjá fyrirtækjum en er að missa heimili sín sjálft. Fjármálakerfið verður að horfa til þessa og sýna samfélagslega ábyrgð," segir Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra, sem fundaði í gær með forsætis- og  félagsmálaráðherra um almenna niðurfærslu skulda.

„Þetta var vinnufundur og engar stórar ákvarðanir teknar, en við erum að halda þessari vinnu allri áfram og fleiri fundir eru fyrirhugaðir í vikunni. Í fyrsta lagi með verður farið yfir málin í fyrramálið, á þriðjudag er svo fundur með öllum þeim þingnefndunum sem að þessu málum koma og síðan er fyrirhugaður fundur með fulltrúum fjármálafyrirtækja og vinnumarkaðar," segir Ögmundur.

Skuldarar kanni sína réttarstöðu 

„Verkefnið er þetta annars vegar, að kanna hvort það sé grundvöllur fyrir mjög breiðri og víðtækri samstöðu um aðgerðir í fjármálakerfinu, en hinsvegar að ryðja úr vegi öllum þeim farartálmum og þröskuldum sem standa í vegi þess að þau úrræði sem þegar eru hafa verið lögfest nái fram." Þá vilji ríkisstjórnin einnig hvetja alla þá sem standa frammi fyrir nauðungarsölum að leita til umboðsmanns skuldara og fá þannig aðstoð við að kanna sína réttarstöðu.

„Það er hægt að stilla þessum skuldavanda upp á tvennan hátt," segir Ögmundur. „Annars vega er hægt að segja að það sé verið að hjálpa skuldurum, veita þeim úrræði og koma þeim til aðstoðar.  Hin nálgunin er gerólík, þá segir skuldarinn: „Ég þarf enga aðstoð, það þarf einfaldlega að skila því til baka sem oftekið var af mér." Þetta er hugsun sem ber að virða líka því hún er að mínum dómi mjög réttmæt og þetta verður fjármálakerfið allt að horfast í augu við."

Ögmundur segir að kreppan sé ekki aðeins kreppa skuldara, heldur einnig kreppa banka og lánveitenda og hann vilji sjálfur sjá að farið sé til beggja aðila. „Við lifum mjög sérstaka tíma á íslandi og við verðum að grípa til sérstakra aðgerða í framhaldinu. Hagsmunasamtök heimilanna segja, og líklega eru flestir sammála því, að lagasetning getur verið torveld í þessum efnum vegna þess að skaðabótakröfur kunni að skapast ef farið er lagaleiðina til að skrúfa niður höfuðstólanna. Hin er miklu vænlegri leið, að leita eftir því að menn geri þess hluti af fúsum og frjálsum vilja, nái sátt um það og nú reynir á hvað menn vilja í þessum efnum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert