Skuldavandi heimilanna ræddur

mbl.is

Fundur forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar hófst klukkan tíu. Þar eru ræddar hugmyndir um almenna niðurfærslu skulda heimilanna í landinu.

Á fundinn voru boðaðir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi Framsóknarflokksins og Þór Saari frá Hreyfingunni.

Þór sagðist ekki vita við hverju hann ætti að búast á fundinum.
„Ég held að áhersla verði lögð á að það sé ekki hægt að fara í almenna niðurfærslu. En ég mæti með opinn huga. Orð Þórólfs Matthíassonar, aðalhagfræðings Samfylkingarinnar í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun, þar sem hann sagði að það væri galið að reyna að bjarga heimilunum, þóttu mér ekki gefa tilefni til bjartsýni. Orð hans eru ekkert annað en ábyrgðarlaust hjal,“ segir Þór.

Þór segir að óskaniðurstaðan væri að ríkisstjórnin viðurkenndi vandann og bregðist við honum í takt við tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna.  „Kostnaður fellur ekki beint á skattgreiðendur, verði leið Hagsmunasamtakanna farin. Þetta er fyllilega raunhæft að mínu mati. Það hefði auðvitað átt að leysa úr þessu fyrir löngu síðan. Ég held að við séum komin á síðasta snúning að leysa úr þessum gríðarlega vanda,“ segir Þór. Hann segir að ekki sé verið að greiða af um 63% allra lána og á næsta ári sé því spáð að 73,000 heimili verði með neikvæða eiginfjárstöðu. Ekkert annað blasi við en gjaldþrot samfélagsins.

mbl.is