Kópavogur greiði skógræktarfélagi bætur

Hluti trjánna sem fjarlægð voru úr Heiðmörk.
Hluti trjánna sem fjarlægð voru úr Heiðmörk. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að Kópavogsbær greiði Skógræktarfélagi Reykjavíkur tæpar 19,5 milljónir króna í bætur vegna þess að tré voru fjarlægð úr svonefndum Þjóðhátíðarlundi í Heiðmörk vegna vatnsveituframkvæmda.

Miklar deilur urðu vegna þessa máls í febrúar árið 2007 og gengu ásakanir á milli.

Skógræktarfélagið fór fram á 21 milljón króna í bætur vegna skemmda á trjáræktinni. Tveir dómkvaddir matsmenn komust að því að 559 tré á um það bil 3600m² landi í og við svonefndan Þjóðhátíðarlund í Heiðmörk hefðu farið forgörðum við framkvæmdirnar. Bótakrafan var byggð á mati á smásöluverði trjágróðursins á almennum markaði.

Skógræktarfélagið byggði kröfu sína á að trén hafi verið í eigu og umsjá félagsins – en landið er í eigu Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina