ASÍ krefst stöðugleika

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

ASÍ gerir kröfu til að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verð tryggður efnahagslegur stöðugleiki eins og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við.

Þetta kemur fram í ályktun ársfundar ASÍ sem lauk í dag.

Í ályktuninni segir að traustur og stöðugur gjaldmiðill, traust og trúverðugleiki og ábyrg hagstjórn séu helstu forsendur stöðugleika.

Þar segir ennfremur:  „ASÍ telur mikilvægt að takast á við aðsteðjandi vanda með því að efla verðmætasköpun. Efla nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki og auðvelda erlenda fjárfestingu Auka fullvinnslu innanlands og markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti. ASÍ gerir kröfu um gegnsæi og siðvæðingu í íslensku samfélagi.“

ASÍ telur mikilvægt að efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði við það verkefni að efla atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks.

Forsenda víðtækrar sáttar og samvinnu er, að mati ASÍ, að  traust ríki milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, að samstaða náist um samræmda launastefnu sem feli í sér almennar launahækkanir og jöfnun kjara og að lífeyrisréttindi allra landsmanna verði jöfnuð.

ASÍ krefst þess að staðið verði við gefin loforð um hækkun persónuafsláttar og bendir á að samningstími ráðist af innihaldi kjarasamninga, trausti og forsenduákvæðum.

mbl.is