Vilja hækka útsvar

Tekjustofnanefnd, sem falið var að leggja fram tillögur um að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga, leggur til að hámarksútsvar verði hækkað um 0,25 prósentur árið 2013 og aftur árið 2014, samtals um 0,5 prósentur.

Jafnframt er lagt til að breytingar verði gerðar á fasteignagjöldum og að lágmarksútsvar hækki samsvarandi. Á árinu 2010 er lágmarksútsvar 11,24% en hámarksútsvar 13,28%.

Ögmundi Jónassyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra var afhent skýrslan í dag til frekari úrvinnslu og umfjöllunar á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga.

Tillögur tekjustofnanefndar til framtíðar snúast um útsvar, fasteignaskatta, millifærslur eða jöfnun, þjónustutekjur og nýja tekjustofna. Einnig er bent á hagræðingarmöguleika meðal annars með sameiningum eða aukinni samvinnu sveitarfélaga og með markvissri forgangsröðun í opinberri þjónustu.

Telja að ríkið eigi að lækka tekjuskatt á móti

Tillögur um útsvar eru eftirfarandi:

  • Að hámarksútsvar verði hækkað um 0,25 prósentustig árið 2013 og aftur árið 2014, samtals um 0,5 prósentustig. Að lágmarksútsvar hækki samsvarandi.
  • Að almenn heimild sveitarfélaga til allt að 10% aukaálagningar eða lækkunar á útsvari verði felld brott. Áfram verði þó hægt að leggja á álag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika.

Gangi tillögurnar eftir mun fyrri hækkunin hafa í för með sér um fjögurra milljarða króna tekjuaukningu fyrir sveitarfélögin miðað við að þau fullnýti útsvarið frá og með árinu 2014.

Það er hins vegar á ábyrgð einstakra sveitarfélaga að ákveða hvort og að hve miklu leyti heimild til aukinnar útsvarsálagningar verður nýtt, að því er fram kemur í skýrslu nefndarinnar.

Fulltrúar sveitarfélaganna benda á að hækkun hámarksútsvars nýtist sveitarfélögum ekki nema að takmörkuðu leyti nema ríkið lækki tekjuskattinn á móti útsvarshækkun.

Blönduð leið valin varðandi fasteignaskatta

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar varðandi fasteignaskatt:

Að skoðaðir verði kosti og galla þess að farin verði blönduð leið þegar metinn er stofn til álagningar A hluta fasteignaskatta. Annars vegar verði byggt á fasteignamati eins og það er í dag og hins vegar verði byggt á fermetrafjölda íbúðarrýmis eða öðrum atriðum, svo sem brunabótamati eða endurstofnverði sem hafa í för með sér jafnandi áhrif á álagningu fasteignaskatta.

Vilja auka framlög í Jöfnunarsjóð

Varðandi millifærslur er lagt til að framlög ríkis í millifærslukerfi eða Jöfnunarsjóð verði aukin og til greina komi að sveitarfélögin leggi Jöfnunarsjóði til meira fjármagn og að núverandi fyrirkomulagi sjóðsins verði breytt þannig að tekjuháum sveitarfélögum verði ekki veitt framlög úr sjóðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina