Fleiri sækja um greiðsluaðlögun

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara mbl.is/Árni Sæberg

Þeim sem sækja um greiðsluaðlögun hefur fjölgað mikið síðan lögum um greiðsluaðlögun var breytt. Síðustu daga hafa um 30-40 nýjar umsóknir bæst við  daglega hjá embætti umboðsmanns skuldara.

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Umboðsmanni skuldara, segir að nýjar umsóknir séu að berast vegna breytinga á lögunum og eins vegna þess að starfsmenn Umboðsmanns skuldara hafi síðustu vikur haft samband við þá sem eru komnir í uppboðsferli.

Lögin um umboðsmann skuldara voru þannig að kröfuhafar máttu ekki krefjast greiðslu skulda, nauðungarsölu eða fjárnámi hjá skuldara eða ábyrgðarmönnum þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafði verið samþykkt. Lögunum var breytt fyrr í þessum mánuði þannig að nú gerist þetta strax og umsókn hefur verið móttekin og búið er að skila inn helstu gögnum.

Svanborg sagði að þetta þýddi að fólk kæmist í ákveðið skjól fyrr í ferlinu og þannig gæfist meiri tími til að fara yfir einstök mál og reyna að finna lausn.

Fyrra hluta október hóf umboðsmaður skuldara úthringingar þar sem haft er samband við þá einstaklinga sem eru við það að missa húsnæði sitt á nauðungarsölu. Af þeim sem rætt var við fyrstu helgina sem hringingar hófust óskuðu 82% eftir frekari aðstoð umboðsmanns. Af þeim sem svöruðu sögðust 43% ekki hafa nýtt sér fresti vegna nauðungarsölu, 38% höfðu nýtt sér slíka fresti en 18% gátu ekki svarað. Þá sögðust 60% vilja leita leiða til að koma í veg fyrir uppboð, 23% vildu það ekki en 17% gátu ekki svarað til um hvort þeir vildu það eða ekki. Tæpur helmingur, eða 48%,hafði ekki nýtt sér úrræði vegna greiðsluerfiðleika, 28% höfðu nýtt sér einhver úrræði en 25% gátu ekki svarað.

mbl.is