Vilja draga skattahækkanir til baka

/Bjarni Benediktsson.
/Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ástandið í efnahags- og atvinnumálum „einungis að versna“ vegna þess að ríkisstjórnin hafi valið ranga leið við endurreisnarstarfið. Bjarni kynnti boðaða þingsályktunartillögu allra þingmanna flokksins á blaðamannafundi nú fyrir stundu.

Þingsályktunartillagan, sem kynnt var undir yfirskriftinni „Gefum heimilum von“ er listi aðgerða, alls 41 talsins, sem Alþingi yrði falið að hrinda í framkvæmd til þess að „stuðla að sátt um heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum.“

Á meðal þess sem lagt er til er að skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar gangi að fullu til baka næstu tveimur árum. Greiðsluaðlögunarúrræði fyrir heimili verð einfölduð verulega, rýmkuð þannig að fleiri standi þau til boða. Öllum sem þess óska standi til boða að lækka greiðslubyrði fasteignalána um allt að 50% til þriggja ára.

Einnig eru lagðar til breytingar í tengslum við gjaldþrotaúrskurði, meðal annars að fyrningarfrestur krafna verði styttur í takt við frumvarp sem nú er til meðferðar í Allsherjarnefnd.

Bjarni kynnti hugmyndir þess efnis að auðlindir landsins skuli nýttar skynsamlega og „hvötum beitt til að örva hagkerfið.“ Á meðal þess sem talið er til aukning þorskafla um 35 þúsund tonn, fyrirgreiðsla vegna framkvæmda í Helguvík og á Bakka, ráðist verði í arðbær verkefni í samstarfi við lífeyrissjóði og skattkerfinu beitt til að skapa störf og vernda þau sem fyrir eru.

Bjarni sagði eðlilegt að spurt væri hver kostnaður við þessar aðgerðir yrði. Skattalækkanir kæmu til með að kosta ríkið 31 milljarð, en tekjur vegna fjölgunar starfa kæmu til með að vega það tap upp. Skattlagning inngreiðslna séreignarsparnaðar myndi skila ríkinu tugum milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert