28 umferðaróhöpp í Reykjavík í kvöld

Snjór og skafrenningur eru á höfuðborgarsvæðinu
Snjór og skafrenningur eru á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Júlíus

Reykjavík breyttist skyndilega í vetrarríki síðdegis í dag og virtist snjórinn koma aftan að mörgum bílstjórum sem ekki virtust fyllilega búnir undir vetrarfærðina. Frá því klukkan 17 í dag hafa 28 umferðaróhöpp verið tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og má ætla að þau séu enn fleiri þar sem tjónaskýrslur eru oft afgreiddar án aðkomu lögreglu.

Að sögn lögreglu var sem betur fer almennt um smávægileg óhöpp að ræða og það yfirleitt „týpísk hálkuslys". Nokkrir misstu bíla út af veginum eða á ljósastaura, aðrir gleymdu að gera ráð fyrir lengri hemlunarvegalengd og lentu aftan á næsta bíl á gatnamótum og svo framvegis. Í nokkrum tilfellum vra fólk flutt á slysadeild til skoðunar en ekki var talið að um alvarleg meiðsl væri að ræða í neinum tilfellum.

Slysin áttu sér stað víðsvegar um höfuðborgarsvæði, allt frá Kópavogi til Mosfellsbæjar, og ekki á neinu einu svæði fremur en öðru að sögn lögreglu.  Áframhaldandi snjókomu er spáð fram á nótt en á morgun verður heiðskýrt og hiti við frostmark. Má því búast við slabbi.

Sem stendur er hinsvegar hálka á vegum í og við Reykjavík, á Kjalarnesi, Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Hálka er á Vesturlandi, snjókoma á Holtavörðuheiði og hálkublettir og snjókoma á Bröttubrekku. Hálkublettir og éljagangur er á flestum leiðum á Snæfellsnesi en hálka og skafrenningur á Fróðárheiði.

Það sama er að segja um aðra landsfjórðunga, hálka og hálkublettir eru um allt land og víða snjókoma eða éljagangur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert