Hafa fyrirvara á samráði

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson Ómar Óskarsson

„Mér finnst sérstakt að forsætisráðherra skyldi segja þetta með þessum hætti að við værum ekki til í samráð því það kom ekki fram á þessum fundi, nema það að við höfum vitanlega mikla fyrirvara á því út af því sem á undan er gengið," segir Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Gunnar segir ofmælt að stjórnarandstaðan hafi gengið út af fundi með ríkisstjórninni í dag.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra áttu í dag fund með fulltrúum stjórnarandstöðunnar um samstarfsáætlun í atvinnu- og markaðsmálum. „Við sátum þarna í tvo tíma og fórum yfir hlutina fram og til baka, síðan var ákveðið að slíta þeim fundi en það er jafnframt búið að boða annan fund mánudaginn næsta þar sem verður haldið áfram að ræða  þessi mál," segir Gunnar.

Hann segir rangt að stjórnarandstaðan sé ekki tilbúin í samráð.  „Við tókum ekki fyrir það, en hinsvegar er ljóst að það er miklu meiri tregi til þess heldur en áður því reynslan kennir okkur að  það er ekki að skila neinu. Ég upplýsti um það að ég tel þetta sérstakt að vera boðið til málsins þegar allt stefnir í óefni enn og aftur.

Það var leitað eftir samstarfi um Icesave þegar allt var komið í óefni, leitað eftir samstarfi um skuldir heimilanna þegar það voru hér gríðarleg mótmæli 4. október og nú er leitað til okkar því það er ljóst að það þarf að bregðast við með kröftugum hætti í atvinnumálum og vinnumarkaðurinn er í uppnámi. Þá er leitað til okkar, en okkur finnst nú hreinlega að það eigi þá að ganga leið og mynda hér þjóðstjórn um mikilvæg verkefni sem þarf að koma fram."

Gunnar Bragi segist munu ítreka þá skoðun sína á fundinum næsta mánudag að breyta þurfi stjórnarmynstrinu.  „Málið er miklu stærra heldur en bara atvinnumál. Við þurfum við að horfa fram í tímann, hvernig við ætlum að láta hlutina ganga næstu árin, og ég sé ekki eins og ástandið er í dag að það gangi án þess að breyta ríkisstjórninni, draga fleiri til ábyrgðar og taka þá um leið inn fleiri tillögur og hugmyndir.“

mbl.is