Biður ríkislögreglustjóra um skýrslu

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík.
Bandaríska sendiráðið í Reykjavík. mbl.is/Sverrir

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag hafa átt fund með ríkislögreglustjóra og farið þess á leit að hann kanni, hvort bandaríska sendiráðið í Reykjavík hafi látið fylgjast með íslenskum borgurum í nágrenni þess.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, spurði Ögmund hvort hann hefði kynnt sér fréttir, sem borist hefðu síðustu daga af ólöglegri njósnastarfsemi bandarískra sendiráða í höfuðborgum hinna Norðurlandanna.

Ögmundur sagðist hafa leitað eftir upplýsingum innan dómsmálaráðuneytisins en samskipti við erlend sendiráð færu í gegnum utanríkisráðuneytið. Sagðist Ögmundur myndu flytja þinginu skýrslu þegar upplýsingarnar lægju fyrir.

Álfheiður sagðist ekki gera lítið úr því að bandarísk sendiráð væru hættusvæði vegna stríðsrekstrar Bandaríkjamanna og því  yrði að tryggja bandarískum sendiráðum sérstaka vernd. En slík trygging mætti aldrei vera á kostnað mannréttinda eða persónufrelsis almennra borgara, sem væru svo óheppnir að búa nálægt sendiráðunum.

mbl.is