Fréttaskýring: Fjöldi flugmanna án vinnu í vetur

Töluverður fjöldi atvinnuflugmanna hefur ekki vinnu við flug í vetur. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir en að mati Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra atvinnuflugmanna, slagar sá fjöldi að öllum líkindum upp í eitt hundrað manns.

Kjartan segir engar breytingar fyrirsjáanlegar á þessu ástandi í vetur. Á hinn bóginn er reiknað með mikilli aukningu hjá Icelandair næsta sumar vegna betri verkefnastöðu.

Í umfjöllun á vefsíðu FÍA er vitnað í Þorgeir Haraldsson, yfirflugstjóra Icelandair, sem kveðst vona að allir þeir sem hafa verið í uppsögn hjá félaginu muni komast í vinnu yfir sumartímann næsta vor.

Fram kemur að þeir sem yngstir eru í starfsaldri í þeim hópi hafi þá verið utan vinnu hjá félaginu síðan haustið 2008. Er haft eftir Þorgeiri að miðað við þá áætlun sem í gangi er í dag sé alveg ljóst að ekki megi búast við nýráðningum flugmanna. Þeir flugmenn sem sagt var upp og munu fá störf á ný næsta vor séu það margir að það muni fullnægja þeirri þörf sem verður hjá félaginu næsta sumar.

Fram kom í sumar að 54 flugmenn hjá Icelandair fengu uppsagnarbréf sem tóku gildi 1. september og alls voru þá 90 flugmenn í uppsögn hjá félaginu. Fyrir nokkru var frá því greint að Icelandair ætlaði að auka áætlunarflug sitt á næsta ári um 17% og fljúga til 31 áfangastaðar og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Allir fái starf næsta sumar

,,Undanfarin sumur hafa ekki allir komist í vinnu sem hafa verið við störf hjá félaginu en mér sýnist að ef að líkum lætur muni allur hópurinn fara inn næsta sumar,“ segir Kjartan. Hann á hins vegar ekki von á nýráðningum.

Hópur atvinnuflugmanna sem misst hafa vinnuna hafa leitað út fyrir landsteinana og að sögn Kjartans hafa margir þeirra fengið vinnu hjá Air Atlanta, þar sem uppgangur sé hjá félaginu. Stærsti hópurinn er með loforð um vinnu fram yfir áramót við pílagrímaflugið en Atlanta hefur verið að fjölga vélum hjá sér.

Fjöldi flugmanna, sem sagt var upp og ekki hafa leitað út fyrir landsteinana, er hins vegar án vinnu, eða starfar við flugkennslu. Enn aðrir eru í störfum sem eru fluginu óviðkomandi, t.d. við bensínafgreiðslu, skv. upplýsingum Kjartans.

16 vélar í verkefnum

„Verkefnastaðan lítur ágætlega út,“ segir Hannes Hilmarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Air Atlanta. Hluti flugáhafnarinnar er Íslendingar og hafa flugmenn sem misst hafa vinnuna hér heima fengið störf hjá flugfélaginu ,,Við erum á svipuðu róli og verið hefur og erum með 16 vélar í verkefnum í dag,“ segir Hannes.

Félagið hefur unnið að endurnýjun flugflotans sem skiptist að jöfnu á milli farþegaflugs og fraktflugs. Pílagrímaflugið er stór hluti starfseminnar og að sögn Hannesar eru um þessar mundir tvær vélar í áætlunarflugi fyrir Saudi Arabian Airlines allt árið. Þá hefur dregið úr óvissu að félagið er með verkefni til lengri tíma en áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert