Hornsteinn lagður að nýbyggingu HR

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands flutti ávarp við athöfnina í …
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands flutti ávarp við athöfnina í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Háskólinn í Reykjavík hefur nú flutt alla starfsemi sína undir eitt þak að Menntavegi 1 í Nauthólsvík og var nýbyggingin vígð og hornsteinn lagður að henni nú síðdegis.

Hornsteinninn, sem er 5 kílóa loftsteinn sem lenti á jörðinni fyrir 4.000 árum, var lagður af menntamálaráðherra og formanni stúdentafélags HR, samkvæmt tilkynningu.

Rétt rúm 3 ár eru síðan fyrsta skóflustungan var tekin að byggingu HR í Nauthólsvík. Nú þremur árum síðan stunda 3.000 nemendur nám í skólanum og við hann starfa um 270 manns.

Vill sjá kirsuberjatré í Öskjuhlíðinni

Jón Gnarr borgarstjóri flutti ávarp þar sem hann lýsti mikilli persónulegri ánægju með að risinn væri háskóli í Öskjuhlíðinni. Hann kynnti ennfremur fyrirhugað samstarf Reykjavíkurborgar, HR og Skógræktarfélags Íslands um uppbyggingu Öskjuhlíðarinnar.

„Við ætlum að taka höndum saman um að byggja upp aðstöðu til almennrar útiveru, samveru og almenningsíþrótta. Við munum heldur ekki gleyma gróðrinum. Ég hef sjálfur brennandi áhuga á hvers kyns gróðurrækt og vil sjá hér blómstrandi rósir, berjarunna og kirsuberjatré í Öskjuhlíðinni. Og fullt af „allskonar“ glöðum borgurum.”

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, lýsti sérstakri ánægju sinni með vilja Reykjavíkurborgar til samstarfs. Hann segir það alla tíð hafa verið markmið stjórnenda HR að hlúa að og rækta umhverfi skólans í Nauthólsvík.

„Það umhverfi sem við höfum hér í Nauthólsvíkinni, við rætur Öskjuhlíðar, er einstakt. Það er einlægur vilji okkar og markmið að bygging HR verði viðbót við svæðið sem styður við það og eykur við tækifæri fólks til að njóta þess. Í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg og Skógræktarfélag Íslands höfum við nú tækifæri til að gera Öskjuhlíðina að einstakri útivistarperlu, landsmönnum öllum til gleði og ánægju,“ er haft eftir Ara Kristni í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert