„Það hefur tekist að opna umræðuna þannig að sjálfsvíg eru ekki eins mikið tabú og þau voru áður,“ segir sr. Halldór Reynisson. Hann er formaður Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, sem í kvöld standa fyrir fræðslufundi um sorg eftir sjálfsvíg.
Í hverjum mánuði svipta að meðaltali þrír til fjórir einstaklingar sig lífi á Íslandi, skv. upplýsingum frá Landlæknisembættinu. Halldór bendir á að almennt látist fleiri vegna sjálfsvíga á Íslandi en vegna umferðarslysa. Árið 2009 sem dæmi létust 17 manns í banaslysum í umferðinni, en 36 sviptu sig lífi.
„Ég leyfi mér að setja fram þennan samanburð vegna þess að menn taka ekki alltaf eftir því hvað þetta er í raun stórt vandamál,“ segir Halldór. „Þetta er falið og það er hluti af því sem Ný dögun vinnur að, ásamt heilbrigðiskerfinu öllu, að hafa umræðuna um sjálfsvíg opnari og hjálpa fólki út úr þessari stimplun sem hefur svo lengi fylgt sjálfsvígum.“
Það er ekki nýtt af nálinni að bylgja sjálfsvígstilrauna fylgi sjálfsvígi frægs einstaklings. Hefur stundum verið vísað í fyrirbærið sem „Werther-heilkennið“ eftir skáldsögu Goethe, Raunir Werthers unga.
Halldór segir að menn tali stundum um „smitáhrif“ sjálfsvíga en flestir þeir sem vinni í því að takast á við þennan vanda séu þó á þeirri skoðun að umræðan verði að vera opin. „En getur verið vandasamt hvernig á að ræða þau og það sem menn vilja fyrst og fremst forðast er að sjálfsvíg séu rómantíseruð.“
Halldór segir að þörfin sé sannarlega til staðar fyrir stuðningshóp fyrir aðstandendur fólks sem sviptir sig lífi. Að missa einhvern nákominn skyndilega eða ótímabært sé alltaf gríðarlegt áfall og þegar um er að ræða sjálfsvíg verði oft enn erfiðara fyrir fólk að vinna úr sorginni.
„Þá bætast við sektarkennd, reiði og jafnvel skömm. Sjálfsásakanir, sem eru mjög erfiðar tilfinningar.“ Vegna þess hve viðkvæm sjálfsvíg eru, og hve lengu þau hafi verið tabú, segir Halldór að svo virðist líka vera sem umhverfið eigi erfiðara með að nálgast syrgjandann. Fundur Nýrrar dögunar er í Háteigskirkju í kvöld kl. 20.30. Skráð verður í stuðningshóp aðstandenda.
Sr. Halldór vekur athygli á því að ungir karlmenn virðist í sérstökum áhættuhóp. „Margir spyrja sig hvort það sé eitthvað í lífsstíl okkar hér á Vesturlöndum sem sé á einhvern hátt lífsfjandsamlegt ungum karlmönnum. Það virðist fylgja því meiri tilvistarkreppa að vera ungur karlmaður í dag en ung kona.“ Eins og áður segir sviptu 36 Íslendingar sig lífi árið 2009. Þar af voru 7 konur og 29 karlar. Halldór segir að í þessu samhengi sé stundum talað um „kostnað karlmennskunnar“. Margir vilji beina frekari sjónum að því að efla enn forvarnir gegn þessari vá.