Tillögunum verður breytt

„Tillögurnar eins og þær líta út verður breytt, ég segi ekki meira“, segir Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra. Undirskriftir tuga þúsunda manna voru afhentar ráðherranum í kuldanum á Austurvelli síðdegis. Formaður samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segir niðurskurðartillögurnar arfavitlausar. 

Sunnlendingurinn Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson flutti drápu þegar Guðbjartur fékk í hendur tíu þúsund undirskriftir Sunnlendinga. Fjöldi fólks alls staðar af landinu mótmælti á Austurvelli í dag fyrirhuguðum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.

Alls skrifaði 10.071 íbúi nafn sitt á mótmælalistana á Suðurlandi sem jafngildir því að liðlega helmingur kosningabærra manna í heilbrigðisumdæmi Suðurlands hafi skrifað undir mótmælin en alls eru um 19.200 íbúar á svæðinu 18 ára og eldri. Þá höfðu 2560 eintaklingar einnig skráð mótmæli sín á Facebooksíðu gegn niðurskurðinum á hádegi í dag, samkvæmt tilkynningu.

Sunnlendingar fjölmenntu að Alþingishúsinu í rútum og einkabílum og fór gamall sjúkrabíll fyrir lestinni sem tákn um að með boðuðum niðurskurði sé verið að færa heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi 60 ár aftur í tímann.

„Mjög mikill stuðningur hefur verið við þessi mótmæli á öllu Suðurlandi en auk sveitarfélaganna stóðu stéttarfélögin á Suðurlandi, félög heilbrigðisstarfsfólks og Samband sunnlenskra kvenna að undirskriftasöfnuninni auk fjölmargra annarra félaga og samtaka á Suðurlandi.  Þá hafa fyrirtæki og stofnanir á svæðinu lagt þessu átaki lið sitt.

Elfa Dögg Þórðardóttir formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga ávarpaði heilbrigðisráðherra fyrir hönd landsbyggðarinnar. Í ávarpi sínu sagði Elfa Dögg m.a. að ef boðaður niðurskurður næði fram að ganga fæli hann í sér gróf mannréttindabrot gagnvart íbúum landsbyggðarinnar. Skoraði hún á ríkisstjórnina að standa með sjúkrahúsunum á landsbyggðinni og tryggja að íbúar þar fengju áfram að njóta þeirra grundvallarmannréttinda sem lög kveða á um," segir í tilkynningu.

Elfa Dögg Þórðardóttir ávarpar Guðbjart Hannesson heilbrigðisráðherra
Elfa Dögg Þórðardóttir ávarpar Guðbjart Hannesson heilbrigðisráðherra
Sunnlendingurinn Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson flutti ráðherrum drápu
Sunnlendingurinn Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson flutti ráðherrum drápu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert