Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar hækkar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg hyggst hækka fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga um 19% frá 1. janúar 2011. Frá þeim tíma verður grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar kr. 149.000 í stað 125.540 kr. Hækkunin nær til þeirra íbúa sem reka eigið heimili og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Fjárhagsaðstoð til hjóna hækkar úr kr. 200.864 í kr. 223.500, eða um 11% frá sama tíma, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Sérstök jólauppbót upp á rúmar 31 þúsund krónur

Reykvíkingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu munu fá greidda sérstaka jólauppbót sem nemur 31.385 krónum. Þetta gildir fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu í 3 mánuði eða lengur.

Ennfremur verður greidd 12.640 króna uppbót vegna hvers barns á heimilinu. Gert er ráð fyrir að rúmlega þúsund einstaklingar fái desemberuppbót og að aðstoðin nái til rúmlega 500 barna.

2,8 milljarðar í fjárhagsaðstoð hjá borginni á næsta ári

Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti tillögu Besta flokksins og Samfylkingar þessa efnis á fundi sínum  í kvöld  og var tillögunni að því loknu vísað til borgarráðs.

Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, fagnar hækkun fjárhagsaðstoðar. „Það er ljóst að margir eiga erfitt um hver mánaðamót og ná ekki endum saman. Það bitnar ekki síst á börnum. Með þessu móti vilja borgaryfirvöld bæta hag þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem fá aðstoð frá Reykjavíkurborg, “ segir í tilkynningu.

Heildarkostnaður vegna þessarar hækkunar fjárhagsaðstoðar eru 368 milljónir króna, miðað við óbreyttan fjölda notenda. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld til fjárhagsaðstoðar á árinu 2011 verði 2,8 milljarðar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert