Krefst skipunar verjanda síns

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, telur að óhæfilegur dráttur hafi orðið á því að honum sé skipaður verjandi vegna málshöfðunar Alþingis frá 28. september sl. Hann óskar eftir því að Andri Árnason hrl. verði skipaður verjandi sinn og krefst þess að skipunin fari fram tafarlaust.

Geir skrifaði Ingibjörgu Benediktsdóttur, forseta landsdóms, bréf síðastliðinn mánudag. Hann vitnar þar í 15. grein laga um landsdóm þar sem segir að forseti dómsins skuli skipa ákærðum verjanda úr hópi hæstaréttarlögmanna svo fljótt sem verða má.

„Ég tel að nú þegar hafi orðið óhæfilegur dráttur á því að mér sé skipaður verjandi í samræmi við þessa lagagrein án þess að mér hafi verið gerð grein fyrir ástæðum þess. Augljóst er að ég hef verulega hagsmuni af því að lögmaður minn fái þegar formlega stöðu verjanda svo hann geti hafið gagnaöflun og fylgst með öllu, er fram kemur í málinu, sbr. 17 grein laga um landsdóm. 

Með vísan til ofangreinds tilkynnist yður hér með að ég óska eftir því að Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður, verði skipaður verjandi minn vegna ályktunar Alþingis um málshöfðun á hendur mér og krefst ég þess að skipunin fari fram án frekari tafar,“ skrifar Geir.

Geir segir að svar við bréfinu hafi ekki borist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina