Landsdómur kostar 113 milljónir

mbl.is/Brynar

Í áætlun dómsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að kostnaður við að kalla saman Landsdóm verði 113 milljónir. Þá er miðað við að málsmeðferð taki fjóra mánuði en dragist það í tvo mánuði til viðbótar eykst kostnaður um 43 milljónir. Hluti af kostnaðinum felst í leigu á sal í Þjóðmenningarhúsinu.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hefur ekki endanlega verið ákveðið að þinghald fari fram í Þjóðmenningarhúsinu en við það sé miðað nú.

Í kjölfar þingsályktunar Alþingis frá 28. september sl. þar sem ályktað var að kalla saman Landsdóm, hefur Hæstiréttur og dómsmálaráðuneytið í sameiningu lagt mat á útgjöldin vegna væntanlegs sakamáls.

Í minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu segir að langmesta óvissan liggi í  í lengd málsmeðferðarinnar. „Í þessu minnisblaði er miðað við fjögurra mánaða málsmeðferð, en ef hún reynist t.d. sex mánuðir þá aukast útgjöldin um 43 m.kr. frá því sem hér er áætlað. Með sama hætti gætu gjöldin orðið mun lægri, ef málsmeðferðin tekur innan við fjóra mánuði. Gert er ráð fyrir að starfsmenn, aðrir en dómarar og starfsaðstaða vegna þeirra nái yfir sex mánaða tímabil,“ segir í minnisblaðinu.

Miðað er við að launakjör dómara verði þau sömu og hæstaréttardómara. Laun fimmtán dómara í fjóra mánuði vega þá langþyngst. Að auki er gert ráð fyrir öðrum starfsmönnum í sex mánuði, lögfræðingi, einum skrifstofumanni, dómverði og ritara í hálft starf.

Ekki er innifalinn sá viðbótarkostnaður sem fellur á Hæstarétt, við það að fimm dómarar við réttinn, sitja jafnfram í Landsdómi.  Ef miðað er við laun fimmtán dómara í fjóra mánuði þá gerir það tæpar 77 m.kr. Önnur laun eru samtals áætluð 12,5 m.kr, segir í minnisblaðinu.

Önnur rekstrargjöld eru óveruleg. Ráðuneytið hefur áætlað þau samtals um 7 m.kr. en þau eru einnig mjög háð lengd málsmeðferðarinnar.

Húsaleiga tekur mið að væntanlegum samningi um leigu á sal í Þjóðmenningarhúsinu í fjóra mánuði. Rekstrarkostnaður skrifstofuhúsnæðis fyrir starfsmenn er áætlaður um 3,7 m.kr. Þá er gert ráð fyrir 8 m.kr. aðkeyptri ritaravinnu vegna skráningar á vitnaframburði, auk leigu á upptökutækjum, öryggisgæslu, o.fl. Samtals eru þessi útgjöld áætluð um 13,5 m.kr.

„Heildaráætlun nemur þá rúmum 113 m.kr., en ítrekað skal að óvissan í áætluninni er mun meiri heldur en almennt er um rekstraráætlanir stofnana. Dómsmálaráðuneytið mun upplýsa fjármálaráðuneyti og Alþingi ef líkur eru til þess að raunútgjöld víki verulega frá þeirri áætlun sem hér er sett fram,“ segir í minnisblaðinu.

Í minniblaðinu er lagt er til að ríkisstjórnin samþykki að leggja til breytingu á frumvarpi til fjárlaga, þannig að áætlað sé fyrir 113 m.kr. útgjöldum vegna Landsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert