Vinstri stjórnin styður NATO

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. Rax / Ragnar Axelsson

„Hefði einhver þá spáð því að flokkur Steingríms J. Sigfússonar, Svavars Gestssonar, Ragnars Arnalds og Hjörleifs Guttormssonar stæði að ríkisstjórn Íslands, sem samþykkti gildi NATO fyrir öryggi aðildarríkjanna og nauðsyn eldflaugavarna, hefði sá hinn sami verið afskrifaður sem ruglukollur,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, á síðu sinni.

Björn gagnrýnir fjölmiðlamenn í pistli á síðu sinni fyrir að hafa ekki áttað sig á þeim miklu tíðindum sem urðu í gær þegar „fyrsta hreinræktaða vinstri stjórn Íslands“ stóð að því að samþykkja nýja meginstefnu NATO og eldflaugavarnir fyrir Evrópu og Norður-Ameríku.

Björn greinir frá því að Tryggvi Hjaltason, fulltrúi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs á kynningarfundum í Lissabon, hafi spurt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, um afstöðuna til norðurslóða.

„Fogh Rasmussen svaraði á þann veg að hann teldi ekki neina  öryggisvá „security risks“ á norðurslóðum. NATO mundi ekki hlutast til um málefni þar,“ skrifar Björn. Hann rekur síðan afstöðu einstakra ríkja til norðurslóða og öryggismála þar. Síðan skrifar Björn:

„Þótt þagað sé um Norður-Íshaf í grunnstefnu NATO, hafa einstök ríki bandalagsins sívaxandi áhuga á hafinu. Í þessu efni verða Íslendingar að láta að sér kveða í krafti hnattstöðu sinnar Úr því að hvorki er lengur ágreiningur um afstöðunnar til NATO innan ríkisstjórnarinnar né á íslenskum stjórnmálavettvangi almennt ætti að vera auðveldara en áður að takast á við verkefni í öryggismálum í samvinnu við bandalagið og aðildarríki þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina