Bíða enn eftir bótagreiðslum

Reuters

Þúsundir ferðamanna, sem þurftu að gera breytingar á ferðaáætlunum sínum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl og maí, hafa ekki fengið greiddar bætur frá flugfélögum sem þeir áttu pantað flug með. Samkvæmt frétt Daily Mail er þetta ólöglegt og ljóst að einhverjir fá ekki greitt fyrr en 2011.

Segir í frétt Daily Mail að einhverjir farþeganna hafi verið neyddir til þess að semja um skaðabætur. Eins að greiða sjálfir fyrir túlka og að hringja á milli landa til flugfélaganna þar sem flugfélögin svara ekki tölvupósti frá þeim sem eiga að frá greiddar bætur. 

Segir í fréttinni að Ryanair hafi aflýst yfir 10 þúsund flugferðum vegna öskunnar frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Þrátt fyrir það hafi félagið skilað 452 milljónum evra í hagnað.

Annað lággjaldaflugfélag, EasyJet, segir kostnaðinn vegna gossins nema 65 milljónum punda en félagið aflýsti  7.314 flugferðum. Hagnaður EasyJet nam 152 milljónum punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert