Lög um ábyrgðarmenn andstæð stjórnarskrá

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur segir að lög, sem sett voru á Alþingi á síðasta ári um ábyrgðarmenn, séu andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Suðurlands um tveir ábyrgðarmenn láns skuli greiða Sparisjóði Vestmannaeyja rúma 1 milljón króna.

Um var að ræða sjálfskuldarábyrgð á láni en fólkið hélt því fram að ábyrgð þess væri ekki lengur fyrir hendi vegna breytinga, sem gerðar á lögum um ábyrgðamenn. Dómurinn taldi lögin hins vegar ekki afturvirk.

Upphaf málsins er, að kona á fimmtugsaldri, sem er 75% öryrki, fékk útgefið skuldabréf upp á eina milljón árið 2006 en lenti strax á því ári í vanskilum með það. Móðir konunnar og bróðir voru ábyrgðarmenn hennar.

Konan fékk greiðsluaðlögun á síðasta ári og voru allar samningskröfur gefnar eftir að fullu, þar á meðal kröfur Sparisjóðs Vestmannaeyja á hendur henni. Sjóðurinn taldi hins vegar að ábyrgð ábyrgðarmannanna væri ekki fallin niður og höfðaði  mál á hendur þeim þegar þeir neituðu að greiða. 

Hæstiréttur segir, að kröfuréttur sparisjóðsins á hendur ábyrgðarmönnunum nyti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og þau réttindi yrðu ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert