Ekki samkomulag um makríl

Ekkert samkomulag náðist um hlut Íslendinga í makrílveiðum.
Ekkert samkomulag náðist um hlut Íslendinga í makrílveiðum.

Ekkert samkomulag náðist um hlut Íslands í makrílveiðum á næsta ári á lokafundi strandríkja í Ósló í dag og er íslenska samninganefndin á heimleið. Ljóst þykir því, að Ísland mun einhliða gefa út makrílkvóta fyrir íslensk skip á næsta ári eins og gert var á þessu ári.

Fundinn í Ósló sátu fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja, auk Íslendinga. Að sögn Tómasar H. Heiðar, formanns íslensku samninganefndarinnar, sýndi Ísland aukinn sveigjanleika á fundinum en engar nýjar tölur komu fram af hálfu Noregs og Evrópusambandsins. Á fundi strandríkjanna í október buðu Norðmenn Íslandi 3,1% hlutdeild í heildaraflanum en því höfnuðu Íslendingar á þeim forsendum að um væri að ræða algerlega óraunhæfa tillögu.

„Það ber mikið í milli aðila og svo virðist sem Evrópusambandið og Noregur þurfi meiri tíma til að venjast breyttu göngumynstri makrílsins, sem hefur gengið inn í íslensku lögsöguna í stórauknum mæli á síðustu árum. Við vonum að þeir taki sér ekki of langan tíma, þar sem brýnt er að koma á heildarstjórnun makrílveiðanna til að tryggja ábyrgar og sjálfbærar veiðar," sagði Tómas við mbl.is.  

Íslensk stjórnvöld gáfu út 130 þúsund tonna makrílkvóta fyrir íslensk skip á þessu ári en það svaraði til 16-17% af samanlögðum makrílkvóta.

Auk Tómasar voru í íslensku nefndinni Steinar Ingi Matthíasson, fiskimálafulltrúi við sendiráð Íslands í Brussel, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar og Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. 

mbl.is

Bloggað um fréttina