Forsetinn: Ísland í betri stöðu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í setustofu sinni á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í setustofu sinni á Bessastöðum. Kristinn Ingvarsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir aðdraganda og orsakir bankahrunsins í ítarlegu viðtali við breska útvarpið, BBC. Rætt er við forsetann í tilefni af ummælum hans um óskýra kosti evruupptöku. Forsetinn segir Ísland í mun betri stöðu en nokkur bjóst við. Kostir krónunnar komi við sögu.

Forsetinn ræddi stöðuna á Íslandi í viðtali við Ed Butler, blaðamann BBC, með þeim orðum að hún væri mun betri en óttast var í kjölfar efnahagshrunsins.

„Við erum í mun betra ásigkomulagi (e. shape) en nokkur, þar með talið við sjálf, bjóst við fyrir tveimur árum. Atvinnuleysi er hlutfallslega lítið í evrópskum samanburði. Útflutningur umfram innflutning eykst með hverjum mánuði. Almennt séð gengur okkur mun betur en við óttuðumst fyrir tveimur árum. Því tel ég að við munum koma út úr þessari kreppu fyrr og í betra ásigkomulagi (e. stronger shape) en mörg önnur ríki.“

Leyndarmál Íslendinga

Ed Butler spyr hvernig þetta hafi tekist?

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi var gengisfelling krónunnar styrkjandi þáttur (e. strong helping factor) vegna þess að hún leiddi til þess að útflutningsgeirinn, sjávarútvegurinn og hreini orkugeirinn, ferðaþjónusta og hugbúnaðargeirinn urðu mun samkeppnishæfari. Í öðru lagi hafa öflugar náttúruauðlindir sem Ísland býr yfir komið í ljós (e. come into their own) eftir að bankarnir yfirskyggðu þær.

Í þriðja lagi, og það er athyglisverð þversögn, gegndu bankarnir, vegna þess að þeir voru svo stórir, nánast hlutverki segulstáls með því að soga til sín mjög hæft fólk, verkfræðinga, stærðfræðinga, tölvufræðinga og jafnvel hönnuði í bankageirann. Og þegar þeir hrundu varð þessi stóri hópur af mjög hæfileikaríku og menntuðu fólki skyndilega á lausu fyrir fjölda annarra fyrirtækja, iðnfyrirtæki, upplýsingafyrirtæki og svo framvegis. Svo mörg þessara fyrirtækja hafa á síðustu tveimur árum í raun gengið í gegnum mun betra tímabil en þau gerðu á árunum fram að bankakreppunni.“

Bankarnir voru hindrun 

Butler spyr þá hvort bankarnir hafi í raun verið hindrun fyrir heppilegum hagvexti (e. right way of growth) á Íslandi.

Forsetinn grípur þá fram í fyrir honum og segir:

„Með vissum hætti voru þeir það og þeir voru eins og stór tré sem voru orðin svo stór að skuggi þeirra kom í veg fyrir að aðrar plöntur gátu vaxið.“

Butler spyr: „Eins og þú lýsir því hefur flóttaleið ykkar út úr kreppunni að miklu leyti byggst á gengisfellingu gjaldmiðli ykkar. Sú staðreynd að allt kostar nú helmingi minna sem er flutt út frá landinu?“

Ferðaþjónustan nýtur góðs af breyttu gengi 

Forsetinn svarar þá:

„Og það hefur einnig orðið mun ódýrara fyrir ferðamenn að koma til Íslands. Það er ástæðan fyrir því að þetta ár og síðasta ár voru tvö bestu árin í sögu íslenskrar ferðaþjónustu. En þú hefur fullkomlega á réttu að standa. Krónan hefur að vissu leyti verið hluti af lausninni. En þú gætir einnig fært rök fyrir því að fyrir fjórum til fimm árum hafi hún [krónan] orðið hluti af vandamálinu með því að leyfa bönkunum að koma okkur í þessa stöðu. Svo við stöndum frammi fyrir þessari grundvallarspurningu hvort sjálfstæður gjaldmiðill geti reynst vel til skemmri tíma litið en geti reynst erfiður til lengri tíma litið, með hliðsjón af eðli alþjóðlegra fjármálamarkaða. Og það er spurning sem ekki aðeins við þurfum að svara heldur mörg önnur ríki, þar með talið Bretland.“

Óttaðist félagslega umrótið mest

Butler: Það hafa verið mikil mótmæli á síðustu tveimur árum, breytingar á ríkisstjórn, djúpstæð reiði og bræði. Telurðu að þetta hafi hjálpað til og ertu á því að þetta hafi verið nauðsynlegt til að ná fram hugarfarsbreytingu (e. spiritual turn around) í þínu landi?

„Það var algjörlega nauðsynlegt. Ég get sagt þér blátt áfram og opinskátt að á meðan þessir dagar gengu yfir í desember 2008 og í janúar 2009 var það sem ég óttaðist mest frá einum degi til annars ekki efnahagsáfallið eða sú röskun sem varð í hagkerfinu heldur hið félagslega umrót og hugsanleg sundrung (e. disintegration) í hinu stöðuga íslenska þjóðfélagi. Og þar af leiðandi gáfu stjórnarslit og loforð um þingkosningar fólkinu að grunni til rétt til að ákvarða hver myndi takast á við vandamálið á komandi árum. Það var, að mínu mati, algert úrslitaatriði að fá þjóðina til að sætta sig við byrðina sem óhjákvæmilega fylgdi fjármálakreppunni.“

Á elítan að ráða? 

Forsetinn heldur áfram og spyr hvort elítan eigi að ráða? 

„Og þegar ég les sum ummælin í dag og í gær um erfiðleikana í mörgum evrópskum ríkjum virðist mér sem margir gleymi að þetta er í eðli sínu lýðræðislegt vandamál. Það er spurning hvort vilji sé til að leyfa fólkinu innan ríkjanna að raunverulega ákvarða framtíðina. Eða á að stjórna lausnunum með kænsku (e. maneuver the solutions) með samstöðu elítunnar í fjármálum og stjórnmálum á efsta þrepi, bæði innan Evrópu og annarra ríkja? [...] [V]egna þess að framlag Evrópu varðar meira lýðræði og mannréttindi en fjármálamarkaði.“

„Þetta er ekki spuni“

Butler segir þá: „Þetta er vissulega jákvæður spuni...?“

Forsetinn greip þá inn í og sagði: „Þetta er ekki spuni. Þetta er mín rétta greining á ástandinu. Þetta snýst að kjarna til meira um lýðræði en markaði. Það snýst meira um hvað er fólk tilbúið að gera til að bjarga bönkum, einkabönkum í eigu annarra og hvað á að þvinga það til að gera í gegnum stjórnmálakerfið.“

Ólafur Ragnar Grímsson talar á svipuðum nótum í viðtali við Bloomberg í dag og er hægt að lesa nánar um það hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert